Hinn 5. júlí 2023 var birt tilkynning á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem fram kemur að ákveðið hafi verið að leggja fram tillögu þess efnis að textílvörur verði háðar framlengdri framleiðendaábyrgð (e. Extended Producer Responsibility, skammstöfuð EPR).

Í stuttu máli felur EPR í sér að mengunarbótareglan er teygð út þannig að framleiðendur og innflytjendur textílefna, þ. á m. fatnaðar, verða látnir bera ábyrgð á slíkum vörum frá upphafi til enda. Hér á landi hefur EPR verið þannig útfærð að framleiðendur og innflytjendur vara greiða úrvinnslugjald við innflutning, tekjur af gjaldinu renna í Úrvinnslusjóð sem nýtir þær til að stuðla að því vörur sem eru orðnar að úrgangi rati í æskilegan úrgangsfarveg sem skilar bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, þ.e. undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, aðra endurnýtingu, t.d. orkuvinnslu eða förgun.

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB stefnir m.a. að því að fjölga störfum innan ESB-ríkjanna og spara neytendum á svæðinu fé. Ætlunin er að hvetja neytendur til að draga úr textílúrgangi og velja vörur sem eru bæði hannaðar til að endast lengi og eru þægilegar viðfangs m.t.t. úrgangsmeðhöndlunar. Samhliða er lagt upp með að vinna gegn útflutningi slíks úrgangs til landa utan ESB.

Enn á tillagan eftir að rata á borð Evrópuþingsins og -ráðsins en svo virðist sem stefnt sé að því að hún taki gildi í ESB-ríkjunum árið 2025. Ekki liggur þó endanlega fyrir hvernig tillagan muni líta út en gera má ráð fyrir að hún verði innleidd í íslenskan rétt.

Eftirfarandi er vefslóð á tilkynningu framkvæmdastjórnar ESB: https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_23_3635

Nánari upplýsinga má leita hjá Benedikt S. Benediktssyni, lögfræðingi SVÞ, benedikt@svth.is, s. 864-9136.