Litla Ísland er vettvangur þar sem smá fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum. Í tilefni sumarkomunnar efnir Litla Ísland til fundaraðar þar sem farsæll rekstur fyrirtækja verður í forgrunni.

Mikilvægt er að undirbúa stofnun fyrirtækis vel og leggja grunn að góðum rekstri strax í upphafi. Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur. Nokkrir lykilþættir einkenna fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn og verður farið yfir þá í fundaröðinni.

Fyrsti fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 25. maí í Húsi atvinnulífsins í salnum Kviku kl. 8.30-10, annar fundurinn verður föstudaginn 3. júní og sá þriðji föstudaginn 10. júní á sama stað og tíma. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA. Skrá þátttöku hér.

Fundirnir þrír eru hugsaðir sem ein heild og því fær fólk mest út úr því að sækja þá alla en einnig er hægt að skrá sig á staka fundi. Dagskrá má sjá hér að neðan en að loknum erindum gefst góður tími fyrir fyrirspurnir og umræður.

Boðið verður upp á kaffi, te og með því auk áhugaverðra fyrirlestra.

Miðvikudagur 25. maí kl. 8.30-10

Bókhald
Bókhald er áttaviti og mikilvægt stjórntæki.

Inga Jóna Óskarsdóttir viðurkenndur bókari, ráðgjafi og eigandi hjá Bókhaldi og kennslu og formaður félags bókhaldsstofa fjallar um lykilatriði í bókhaldi, hvað ber að varast og mikilvægi bókhalds sem stjórntækis í rekstri.

Markaðsmál
Á sandi byggði heimskur maður … markaðsstarfið. Vertu með á hreinu hvernig þú getur byggt það á bjargi.

Þóranna K. Jónsdóttir markaðsnörd hjá Markaðsmálum á mannamáli fjallar um þau atriði sem skipta mestu máli í uppbyggingu öflugs markaðsstarfs en eru jafnframt oft vanrækt hjá fyrirtækjum.

Umræður og fyrirspurnir

Föstudagur 3. júní kl. 8.30-10

Starfsmenn
Starfsmannamál – réttu skrefin fyrir stjórnendur.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, MBA, atvinnufélagsfræðingur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus fjallar um helstu réttu skrefin í átt að stefnumiðaðri mannauðsstjórnun og tengingu við góðan rekstrarárangur. Farið verður yfir helstu tól og tæki stjórnandans í mannauðsmálum.

Markmið
Ögrandi markmið og þolinmæði.

Símon Þorleifsson rekstrarverkfræðingur og ráðgjafi í viðskiptagreind og árangursstjórnun hjá Capacent fjallar um markmiðasetningu sem byggir á framtíðarsýn stjórnenda og eigenda.

Lögð er áhersla á að markmið séu skýr, hnitmiðuð og styðji við sýn stjórnenda um framtíð fyrirtækisins. Sýnd verða nokkur dæmi um markmið og hvernig fljótlegast er að setja fram markmið og viðeigandi mælikvarða ásamt dæmum um aðgerðir til að ná framúrskarandi árangri.

Umræður og fyrirspurnir

Föstudagur 10. júní kl. 8.30-10

Samningar
Helstu samningar í fyrirtækjarekstri.  

Inga Björg Hjaltadóttir héraðsdómslögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus fjallar um helstu samninga í fyrirtækjarekstri og mikilvægi vandaðrar samningagerðar.

Skipulag
Skipulag, ákvörðunartaka og eftirfylgni í daglegum störfum.

Thomas Möller hagverkfræðingur, MBA og framkvæmdastjóri Rýmis fjallar um mikilvægi skýrleika (e. clarity) í rekstri og svörunar til starfsfólks (e. feedback). Hann mun einnig fjalla um helstu strauma í framkvæmd stefnumótunar (e. execution).

Umræður og fyrirspurnir

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar Litla Íslands.