Upplýsingar fyrir fyrirlesara og kennara hjá SVÞ

Takk kærlega fyrir að taka þátt í fræðslu- og viðburðastarfi SVÞ!

Hér fyrir neðan eru nokkrir gagnlegir hlutir varðandi undirbúning og framkvæmd viðburða á vegum SVÞ sem við biðjum þig að kynna þér vel. Ef spurningar vakna, vinsamlegast hafðu samband við Rúnu Magnúsdóttur, markaðs og kynningastjóra samtakanna, runa(hjá)svth.is.

 

Efni til kynningar

Til að við getum kynnt viðburðinn sem allra best, biðjum við þig að senda eftirfarandi efni og upplýsingar til markaðsstjóra okkar sem allra fyrst. Okkar reynsla er að því fyrr sem hægt er að setja viðburðinn inn í viðburðadagatalið á vefnum, sem Facebook viðburð og láta vita af honum á póstlistanum, því betra.

  • Titill viðburðar*
  • Kynningartexti um viðburðinn* (Hafðu í hug að vekja áhuga fólks. Spáðu í því af hverju fólk ætti að hafa áhuga á að fylgjast með – hvað fær það út úr því?)
  • Nafn fyrirlesara og starfsheiti
  • Stutt ágrip af starfsferli fyrirlesara (e. bio) (Hafðu í huga að lesandinn skilji hvað þú vilt upp á dekk. Af hverju ert þú rétta manneskjan til að tala um þessi mál? Af hverju ættu þau að hlusta á þig 😉 ).
  • Mynd á jpg eða png formati í góðri upplausn af fyrirlesara/fyrirlesurum, sem leyfilegt er að nota í allt kynningarefni
  • Stuttan texta um fyrirtækið, ef við á
  • Logo fyrirtæksins í png í hárri upplausn á gagnsæjum bakgrunni

* það er um að gera að vinna að titlinum og kynningartextanum fyrir viðburðinn með markaðsstjóranum okkar, en það er mjög gagnlegt að fá tillögu/drög frá þér í samræmi við efnistökin eins og áætlað er að þú setjir þau fram á viðburðinum.

 

Efnistök

Til að tryggja að allir fái sem mest útúr viðburðinum viljum við biðja þig að virða eftirfarandi leiðbeiningar varðandi kynningu á þér, og ef við á, fyrirtækinu þínu og vörum/þjónustu:

  • Eftir titilglæru er þér frjálst að hafa eina glæru sem kynnir þig og fyrirtækið þitt með um 2 mínútna kynningu.
  • Vinsamlegast hafðu í huga að efnið þitt sé gagnlegt fyrir þá sem sækja viðburðinn og að það felist ekki í því nein sala.
  • Í lokin er þér frjálst að hafa eina glæru með upplýsingum um hvernig fólk getur haft samband við þig til að fá frekari upplýsingar og ef það hefur áhuga á því sem þú hefur að bjóða.

 

Vefviðburðir

Ef fyrirlesturinn er tekinn upp fyrirfram munum við hafa samband varðandi fyrirkomulagið.

Fyrir vefviðburði sem streymt er beint notum við almennt Zoom. Við biðjum þig um að gera eftirfarandi til að tryggja að allt gangi sem best þegar að viðburðinum kemur:

  •  Starfsmaður SVÞ mun almennt opna fyrir fundinn hálftíma áður en hann á að hefjast. Við biðjum þig að gera hið sama og prófa hlutina til að geta verið viss um allt virki:
    • Hljóð og mynd
    • Deilingar á glærum
    • Deilingar á myndböndum með hljóði ef við á
  • Þegar allt þetta er komið á hreint biðjum við þig að slökkva á hljóðnemanum (mute). Þú ræður hvort þú slekkur líka á myndinni en það er líka í lagi að hafa hana á, svo lengi sem þú ert meðvituð/-aður um að þú ert í mynd og hagar þér í samræmi við það.
  • Starfsmaður SVÞ mun því næst setja upp titilglæru sem býður fólk velkomið og fær að lifa þar til viðburðurinn hefst.
  • Þegar viðburðurinn hefst munt bæði þú og starfsmaður SVÞ koma í mynd, starfsmaðurinn mun kynna þig til leiks og svo tekur þú við og sérð m.a. sjálf/ur um deilingar á glærunum þínum.

Ef þú hefur einhverjar frekari spurningar um fyrirkomulag vefviðburða, vinsamlegast hafðu samband við þann starfsmann SVÞ sem er að sjá um viðburðinn, eða markaðs- og kynningarstjóra samtakanna.

 

Viðburðir á staðnum

 

Glærur

Vinsamlegast sendu þær glærur sem þú hyggst nota fyrir viðburðinn á markaðsstjóra SVÞ, eða annan umsjónarmann viðburðarins eftir því sem við á, eigi síðar en á hádegi daginn fyrir viðburð. Ef þörf er á að senda þær fyrr muntu verða látin(n) vita.

Vinsamlegast láttu vita hvort glærurnar megi vera gerðar aðgengilegar eftir viðburðinn. Þá munum við setja þær á PDF form og deila þeim þannig ýmist eingöngu til gesta viðburðarins eða almennt á vefnum. Vinsamlegast láttu markaðsstjóra okkar eða umsjónarmann viðburðarins vita ef þú vilt takmarka aðgengi að glærunum þínum á einhvern hátt, eða vilt alls ekki að þeim sé deilt.

Vinsamlegast hafið glærur á PowerPoint eða Google Slides. Keynote glærur er ekki hægt að keyra á viðburðum. Glærurnar verða settar upp í tölvunni í fundarherberginu og keyrðar þaðan. Ekki er hægt að keyra glærur af eigin tölvu.

Ef að þú vilt gera aðra upplýsingar aðgengilegar eftir viðburðinn, hvort sem er gestum viðburðarins, eða almennt, vinsamlegast sendu þær upplýsingar á markaðsstjóra SVÞ eða umsjónarmann fundarins eftir því sem við á og við munum koma þeim áleiðis. Hér er átt við efni eins og ítarefni, gagnlega hlekki eða annað efni á rafrænu formi sem þú kannt að vilja deila. Best er ef hægt er að senda þetta fyrir viðburðinn, en ef það er ekki mögulegt biðjum við þig að senda það eins fljótt og auðið er eftir að viðburðinum lýkur. Það er okkar reynsla að best er að hamra járnið á meðan það er heitt og á meðan viðburðurinn er fólki enn í fersku minni.

 

Streymi

Stefna SVÞ er að streyma sem allra flestum viðburðum, ýmist í opnu streymi á Facebook síðu samtakanna, eða ef við á, á lokuðu svæði ætlað eingöngu fyrir félagsmenn. Upptaka er svo jafnframt gerð aðgengileg, sömuleiðis ýmist almennt eða eingöngu fyrir félagsmönnum. Jafnframt áskiljum við okkur rétt til að klippa búta úr upptökunum og nýta á vefinn eða samfélagsmiðla eftir því sem við á. Ef þú vilt af einhverjum ástæðum ekki að viðburðinum þínum sé streymt, eða upptaka verði gerð aðgengileg, vinsamlegast ræddu það við markaðsstjórann okkar sem allra fyrst.

 

Viðburðardagurinn

Vinsamlegast vertu komin(n) eigi síðar en hálftíma áður en viðburðurinn hefst. Ef um morgunviðburð kl. 8:30 er að ræða þá opnar Hús atvinnulífsins kl. 8:00 á morgnana og gott er að vera komin(n) þá.

 

Ef eitthvað er, vinsamlegast hafðu samband við skrifstofustjóra fræðslumála SVÞ, Rögnu Völu Kjartansdóttur, ragna(hjá)svth.is, og ef mikið liggur við, í síma 840 1245.

Við hlökkum mikið til að fá þig til okkar!

Starfsfólk SVÞ