Hátt í hundrað manns víða úr atvinnulífinu mættu í Hús atvinnulífsins á fyrsta fund vetrarins í fundaröðinni Menntun og mannauður sem fram fór í vikunni.  Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni.

Þórður framkvæmdastjóri, Outcome kannana, og Guðrún S. Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri menntamála hjá Samtökum atvinnulífsins, fóru yfir niðurstöður nýrrar menntakönnunar atvinnulífsins. Fram kom að í sex af hverjum tíu fyrirtækjum fer fram skipuleg fræðsla og að starfsreynsla, menntun á viðkomandi sviði og samskiptahæfni skorar hæst þegar verið er að ráða nýtt fólk.

Að auki voru flutt þrjú erindi frá ólíkum fyrirtækjum, bæði að stærð og gerð, þar sem fjallað var um fræðslu innan þeirra. Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Eimskips, Kristjana Milla Snorradóttir, verkefnastjóri mannauðsmála Nordic Visitor og Guðrún Inga Guðlaugsdóttir, fræðslustjóri Sjóvá veittu innsýn í fræðslustarf fyrirtækjanna.

Í ljós kom ákveðinn samhljómur með þeim og var áhugavert var að heyra um mikilvægi nýliðaþjálfunar og mentora, tækifæri í stafrænni þjálfun og fræðslu svo eitthvað sé nefnt.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, opnaði fundinn og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála hjá Samtökum verslunar og þjónustu stýrði fundinum.

Hér má nálgast erindi sem flutt voru á fundinum.