Markaðurinn birtir í dag, 13. mars, viðtal við Greg Williams aðalritstjóra tímaritsins WIRED, í tilefni af komu hans til Íslands. Greg verður aðalræðumaður á opinni ráðstefnu SVÞ undir yfirskriftinni Keyrum framtíðina í gang! sem haldin verður á Hilton Nordica, á morgun, 14. mars kl. 14:00.

Í viðtalinu ræðir Greg m.a. um hvernig tæknibreytingar nútímans hafa það í för með sér að stórfyrirtæki verði fallvaltari, og bendir m.a. á í því samhengi að á markaði þar sem bandaríski risinn Honeywell hafi áður verið allsráðandi séu nú hátt í 70 fyrirtæki í samkeppni. Einnig leggur hann áherslu á að landfræðilegar breytingar séu að hverfa og að „við lifum ekki lengur í heimi þar sem fólk ber okkur saman við jafningja. Það er verið að bera þig saman við þá bestu sama í hvaða bransa þú ert.“ Hvoru tveggja hefur mikil áhrif á íslensk fyrirtæki, þar sem tækifæri opnast á nýjum mörkuðum, en jafnframt standa þau frammi fyrir aukinni alþjóðlegri samkeppni.

Viðtalið má lesa í heild sinni á bls. 9 í Markaðnum í dag og hér má nálgast blaðið á PDF formi.

Opin ráðstefna SVÞ, Keyrum framtíðina í gang!, verður haldin á Hilton Nordica á morgun kl. 14:00-16:00. Þar mun Greg halda fyrirlestur en einnig verður erindi frá Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Köru connect ehf., Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra mun ávarpa ráðstefnuna ásamt Margréti Sanders, fráfarandi formanni SVÞ. Fundarstjóri verður Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og formaður stýrihóps um nýsköpunarstefnu Íslands. Skráning fer fram hér: https://svth.is/keyrum-framtidina-i-gang/