Hæstiréttur dæmdi í dag að íslenska ríkið hefði brotið gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að halda við lýði banni við innflutningi á fersku kjöti hingað til lands. Fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. fór í mál við ríkið og krafðist skaðabóta þar sem fyrirtækinu var ekki heimilað að flytja hingað til lands lífrænt ferskt nautakjöt frá Hollandi á árinu 2014. Hæstiréttur tók undir með málatilbúnaði fyrirtækisins um að sú synjun hefði farið gegn skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum sem leiddi til bótaskyldu ríkisins gagnvart fyrirtækinu. Námu bæturnar andvirði kjötsins og flutningskostnaði. Þá var ríkið dæmt til að greiða fyrirtækinu málskostnað á báðum dómstigum.

Niðurstaða dómsins er því í fullu samræmi við fyrri ábendingar SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, en samtökin hafa háð áralanga baráttu fyrir afnámi þessara takmarkanna. Upphaf málsins má rekja til kvörtunar samtakanna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá árinu 2011 þar sem ESA, og síðar einnig EFTA-dómstóllinn og Héraðsdómur Reykjavíkur, komust að sömu niðurstöðu,að núgildandi innflutningstakmarkanir á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum séu andstæðar EES-samningnum.

Ferskar kjötvörur ehf., aðildarfyrirtæki SVÞ, stefndi íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir sökum synjunar á heimild til að flytja til landsins ferskar lífrænt ræktaðar nautalundir frá Hollandi. Krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn. Var fallist á þá beiðni og var niðurstaða dómstólsins að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, í nóvember 2018, var á þá sömu. Þrátt fyrir skýra niðurstöðu dómsins var málinu áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu íslenska ríkisins og kvað rétturinn upp dóm sinn fyrr í dag. Í dómi sínum fyrr í dag staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og vísaði til forsenda hans í niðurstöðu sinni.

SVÞ fagna niðurstöðu Hæstaréttar sem er lokaáfangi í baráttu samtakanna sem hófst með kvörtun SVÞ árið 2011. Að sama skapi gagnrýna SVÞ tregðu stjórnvalda að bregðast við rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla í málinu. Skora samtökin á stjórnvöld og Alþingi að taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöfina.