Nýlega sendi fjöldi hagsmunasamtaka í verslun víða um heim frá sér sameiginlegt bréf til samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins þar sem farið var fram á að jöfnuð væri samkeppnisstaða evrópskra verslana (hefðbundinna og vefverslana) gagnvart ríkjum á borð við Kína þegar kemur að sendingarkostnaði. Vegna samnings UPU, Universan Postal Union, sem á rætur sínar að rekja allt til ársins 1874, eru sendingar frá svokölluðum þróunarríkjum, þ.á.m. Kína, verulega niðurgreiddar af þróuðum ríkjum.
Samningurinn hefur litlum breytingum tekið í gegnum tíðina eða engan veginn nægum til að mæta þeirri gríðarlegu breytingu sem alþjóðleg netverslun hefur haft í för með sér. Í dag þýðir samningurinn í raun að ríki á borð við Kanada, Bandaríkin og EES ríki, þ.m.t. Ísland, niðurgreiða verulega póstsendingar frá löndum á borð við Kína og verslun í þessum löndum á því mjög undir högg að sækja vegna þessarar ójöfnu samkeppnisstöðu. Nú í september verður haldið sérstakt þing um þessi mál í Genf og hvetja hagsmunasamtökin hlutaðeigandi aðila til að nota þetta einstaka tækifæri til að gera endurbætur á UPU samningnum. Eru mismuandi leiðir kynntar til sögunnar, sem ýmist fela í sér takmarkaða aukningu á föstum gjöldum frá þróunarlöndum, að gera sendingarþjónustuaðilum kleift að rukka sendingarkostnað að fullu eða einhverskonar blanda af þessum leiðum. Líklegt þykir að fyrsta leiðin, takmörkuð aukning á föstum gjöldum, hugnist fólki ekki og hafa Bandaríkjamenn hafa hótað að draga sig úr UPU verði sú leið valin eða ef samningunum verður ekki breytt yfir höfuð.
Ljóst er að málið er gríðarlega mikilvægt fyrir verslun um allan heim, og ekki síst á Íslandi, sem finnur verulega fyrir áhrifum m.a. frá kínverskum verslunarrisum sem eru ráðandi á markaðnum í krafti stærðar, lágra verða og niðurgreidds sendingarkostnaðar.
Undir bréfið rita fulltrúar hagsmunasamtaka verslunar frá 14 löndum, þ.á.m. Norðurlöndunum, Þýskalandi, Ástralíu. Samtök verslunar og þjónustu eru ein þeirra samtaka sem undirrita bréfið.
Bréfið má sjá hér: Joint industry letter Creating a level playing field for European retail and ecommerce through Universal Postal Union reform