Blaðagrein birt í Viðskiptablaðinu 24.5.2017
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ

Verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði í meira en þrjú ár. Skýrist það m.a. af hækkandi gengi krónunnar og verðlækkun olíu og annarra hrávara. Íslandi er bæði stór innflytjandi og útflytjandi af hrávörum og því hafa verðsveiflur á erlendum hrávörumörkuðum töluverð áhrif hér á landi. Í því ljósi er áhugavert að skoða þróun og horfur á hrávörumarkaði.

Sé litið á þróun Macrobond hrávöruvísitölunnar síðustu þrjú ár sést að hún tekur að lækka á síðari hluta ársins 2014, tekur aðeins við sér í byrjun árs 2015 en nær síðan lágpunkti í febrúar 2016. Hrávöruverð hefur hækkað frá síðasta ári sem skýrist af sterkari vexti, væntinga um kröftugri eftirspurn í heimsbúskapnum auk samþykktra takmarkana á olíuframboði.

Verðvísitala matvæla og drykkja hefur lækkað á árinu
Sé verðvísitala Alþjóðabankans fyrir matvæli (mæld í Bandaríkjadölum) skoðuð sést að vísitalan hefur lækkað um 4,6% frá janúar til apríl 2017. Verðvísitala Alþjóðbankans fyrir drykki (mæld í Bandaríkjadölum) hefur einnig lækkað frá byrjun árs, eða um 5,4%.

Í þessu samhengi mætti nefna að matur og drykkur námu um 10% af heildarinnflutningi til Íslands árið 2015. Því er ljóst að samspil styrkingar krónunnar ásamt hagstæðum ytri áhrifum hefur komið sér vel fyrir neytendur. Innlendur launakostnaður hefur hækkað verulega sem hefur áhrif á söluverð vegna hærri kostnaðar í innlendri matvælaframleiðslu. Þó er vert að hafa í huga að tæplega 40% matarútgjalda íslenskra heimila eru vegna vörutegunda sem njóta tollverndar. Háir tollar gera innlendum framleiðendum kleift að halda verði hærra en nemur heimsmarkaðsverði á sambærilegum vörum.

Heimsmarkaðsverð á olíu stöðugt
Olíuverð hefur hækkað í kjölfar ákvörðunar OPEC – ríkjanna um að takmarka framleiðslumagn. Þrátt fyrir framleiðslutakmarkanir OPEC, hefur fatið af olíu farið hæst í 56 dollara á þessu ári. Það sem hefur haft dempandi verðáhrif á markaðinn er; aukin framleiðsla Bandaríkjanna á olíu, aukning í olíubirgðum í Bandaríkjunum, aukin olíuframleiðsla í Líbýu á undanförnum vikum og tortryggni gagnvart áhrifum takmarkana OPEC á olíuframleiðslu. Aftur á móti hefur Rússland náð samkomulagi við Saudi Arabíu um að framlengja framleiðslutakmörkunina til mars á næsta ári.

Samspil orkuverðs og matarverðs
Orkuverð hefur aðallega áhrif á matvöruverð í gegnum tvær leiðir. Í fyrsta lagi er eldsneyti lykilkostnaður í framleiðslu og flutningi matvæla. Orkunotkun er meira en 10% af kostnaði við landbúnaðarframleiðslu. Í öðru lagi hafa breytingar á orkuverði áhrif á hvata í viðskiptum og stuðning við lífeldsneyti, sem er að hluta til knúið áfram af markmiði um að vera óháðari innflutningi af hrávöruolíu.

Til lengri tíma mun ný tækni draga úr eftirspurn eftir olíu
Stór hluti af olíunotkun í heiminum tengist flutninga- og fólksbifreiðum. Sú tæknibylting, sem nú á sér stað með þróun rafmagnsbíla, sjálf-aksturs bílum, minni og sjálfkeyrandi hópbifreiðum, mun hafa áhrif á eftirspurn eftir olíu. Hið sama á við um þrívíddarprentun, sem mun spara sendingar- og geymslukostnað.

Eins og nefnt var hér að ofan er ljóst að áhrif hækkandi gengis og lækkandi alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs hefur stuðlað að því að verðbólgan hefur haldist lág, enn sú þróun kann að snúast við taki áhrifin þeirra að fjara út.

Alþjóðabankinn spáir því að jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar á olíumarkaði og verð á hráolíu hækki og verði að meðaltali 55 dollara fatið á þessu ári. Þá spáir Alþjóðabankinn því að verð á matvælum eigi eftir að hækka fram til 2020.

Blaðagreinin á pdf sniði.