Á fundi norrænna systursamtaka SVÞ sem haldinn var í Finnlandi fyrir skömmu var m.a. fjallað um mögulegar afleiðingar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu fyrir verslun í Evrópu. EuroCommerce, Evrópusamtök verslunarinnar, hafa greint stöðuna eftir því sem unnt er en ljóst er að mikið óvissutímabil fer nú í hönd, þar sem ekki liggur enn fyrir hvernig Bretar hyggjast haga aðskilnaði sínum við Evrópusambandið. Það eina sem liggur ljóst fyrir er að þeir munu yfirgefa sambandið, eða eins og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands hefur sagt „Brexit means Brexit“.

Búast má við að það taki um tvö ár að ganga frá aðskilnaðinum. Hvað gerist í kjölfarið er hins vegar að verulegu leyti óljóst.
Hvernig munu Bretar haga samskipum sínum við ESB? Munu þeir reyna að tengjast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og Íslendingar og Norðmenn? Telja verður það ólíklega niðurstöðu. Mun líklegra er að þeir muni stefna að tvíhliða samningi við Evrópusambandið, líkt og Sviss hefur gert.

Búast má við að innfluttar vörur frá Bretlandi verði dýrari með frekari veikingu pundsins, sem flestir spá að verði. Það mun eðlilega hafa áhrif á eftirspurn eftir breskum vörum í Evrópu.

Það sem forsvarsmenn verslunarinnar í Evrópu hafa þó mestar áhyggjur af, er hin víðtækari afleiðing Brexit á viðskipti innan Evrópu. Margir óttast að sjónarmiðum verndarstefnu, þar sem tæknilegar viðskiptahindranir og mismunun einstakra aðildarríkja ESB gangvart erlendum fyrirtækjum, vaxi fiskur um hrygg. Nokkur slík dæmi hafa þegar komið upp, t.d. í Ungverjalandi og Póllandi. Það er því hið pólitíska landslag í Evrópu sem er aðaláhyggjuefnið, þar sem sjónarmiðum þjóðernisstefnu vex fiskur um hrygg. Samningaviðræður Bretlands og ESB munu fljótlega leiða í ljós hvor leiðin verður farin, leið frjálsra viðskipta eða leið verndarstefnu með tilheyrandi viðskiptahindrunum.