Hvíldartímareglur ESB og umferðaröryggi

Í ljósi umræðu um aksturs- og hvíldartímareglur atvinnubílstjóra er mikilvægt að halda eftirfarandi til haga.
Það er enginn ágreiningur um það að þreyta bílstjóra er stór áhættuþáttur hvað varðar umferðaröryggi. Að bílstjórar séu vel hvíldir undir stýri í umferðinni er og verður eftirsóknarvert í þeim tilgangi að tryggja sem mest umferðaröryggi. Hagsmunaaðilar í vöruflutningum sem barist hafa fyrir undanþágum frá ítrustu kröfum aksturs- og hvíldartímareglna ESB eru alveg sammála stjórnvöldum um þetta atriði og um það er ekki deilt.

Forsendur þess að barist hefur verið fyrir undanþágum frá ítrustu kröfum aksturs- og hvíldartímareglna og framkvæmd íslenskra stjórnvalda hvað þær varðar snýst um að reglurnar sem slíkar virki sem streituvaldur í umferðinni og verði þannig til þess að minnka umferðaröryggi í stað þess að auka það.
Til að skýra þetta er best að taka dæmi um það hvernig reglurnar eru. Aksturs- og hvíldartímareglur ramma inn vinnutíma atvinnubílstjóra niður í mínútur. Þeim er gert að hvíla sig að lágmarki 45 mínútur eftir að hafa ekið í 4,5 klukkustundir. Ef þeir hvíla sig ekki í lágmark þetta margar mínútur mega þeir eiga von á sekt og/eða punktum. Sektirnar byrja við 15 mínútna umframakstur fram að hvíld og punktarnir byrja við hálftíma umframakstur fram að hvíld. Þeir fá sektir og punkta þó þeir hafi hvílt sig innan 4,5 klst. ef mínúturnar ná ekki 45 mínútum. Þeim er að sama skapi sett hámark um að mega aka í 9 klst. á dag 3 daga í viku og 10 klst. á dag 2 daga í viku. Þar fyrir utan er í reglunum tiltekið nákvæmlega hvað þeir þurfa að hvíla sig samfellt lengi á hverjum sólarhring og hvað þeir eiga að hvíla sig lengi samfellt í hverri viku og á 2ja vikna fresti. Reglurnar ganga þannig út á það að atvinnubílstjórar láta stjórnast algjörlega af klukkunni í starfi sínu. Það er þetta atriði sem bílstjórar gera athugasemdir við og fullyrða að sé streituvaldur. Að láta stjórnast alfarið af klukkunni verði til þess að skapa þeim streitu í stað þess að hvíla þá.

Undanþágubeiðni íslenskra stjórnvalda frá ítrustu kröfum aksturs- og hvíldartímareglna til Eftirlitsstofnunar EFTA gengur út á að fá sveigjanleika í reglurnar til að taka mið af íslenskum aðstæðum – í þeim tilgangi að tryggja með því sem mest umferðaröryggi. Undanþágubeiðnin sem snýr að flutningabílstjórum gengur út á að komast leiðina Austurland – Reykjavík með góðu móti án þess að vera í kapphlaupi við klukkuna. Það er ljóst að það er möguleiki að komast þessa leið í dag við bestu mögulegu aðstæður innan reglnanna eins og þær eru en lítið má út af bregða til þess að það gangi ekki. Það tekur að meðaltali 10 klst. að aka þessa leið og um það snýst undanþágubeiðnin. Að íslenskir atvinnubílstjórar fái heimild til að keyra 10 klst. á dag 3 daga í viku í stað 9 og 11 klst. á dag tvo daga í viku í stað 10. Þá fái íslenskir bílstjórar heimild til að mega aka í 5 klst. samfellt fram að „hvíld“ á þessari tilteknu leið til að geta nýtt sér Freysnes sem áningarstað í stað þess að þurfa að hvíla sig eftir 4,5 klst. og neyðast þá til að leggja útí kanti einhvers staðar án þess komast á salerni eða eiga möguleika á veitingum. Þrátt fyrir þessa undanþágu muni íslenskir bílstjórar halda sig innan þess hámarksaksturstíma á tveimur vikum sem gert er ráð fyrir í reglunum í 90 tíma. Undanþágubeiðnin snýst þannig ekki um það að íslenskir bílstjórar fái heimild til að keyra meira en kollegar þeirra í Evrópu.

Aksturs- og hvíldartímareglur atvinnubílstjóra eru einstakar að því leyti að þær kortleggja vinnutíma þeirra sem undir þeim starfa niður í mínútur allan sólarhringinn. Það er ástæða til að hvetja alla til að velta þeirri staðreynd fyrir sér. Einhverjar starfsstéttir aðrar starfa undir ströngum hvíldartímareglum svo sem skipverjar á skipum og flugstjórar svo dæmi séu tekin en þó öðruvísi að því leyti að þeirra reglur snúast um klukkustundir en ekki mínútur innan hvers dags.

Við hin sem störfum innan fjögurra veggja alla daga störfum undir almennum hvíldartímareglum en höfum allan þann sveigjanleika sem okkur hentar til að haga störfum okkar að vild án afskipta ríkisins. Hvaða áhrif það hefur á manninn að láta stjórnast alfarið af klukkunni? Er það ávísun á „hvíld“ að taka af manninum alla stjórn á eigin vinnutíma og setja honum reglur þar sem fylgst er með að hann haldi sig við innan þess vinnutíma og fari ekki 15 mínútur umfram það? Þetta er brýn spurning sem stjórnvöld hvar sem er í heiminum hljóta að láta sig varða og sem hlýtur að varða okkur öll til framtíðar. Því reglur um aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra hljóta fyrr eða síðar að eiga við um okkur öll.

Grein birt í Morgunblaðinu 27. apríl 2008