RÚV birtir í dag úrtekt frá yfirlýsingu Samtaka sjálfstæðra skóla sem undrast að ekki hafi verið leitað til þeirra vegna úttektar innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Í úttektinni segir meðal annars að nokkrir sjálfstætt starfandi leikskólar greiði út umtalsverðan arð af starfsemi sinni og að engar reglur séu um nýtingu opinberra framlaga og rekstrarafgang þessara skóla. Alma Guðmundsdóttir, stjórnarformaður samtakanna, segir dæmi um rangfærslu í úttektinni.

Þar kemur m.a. fram að Alma segir að best hefði verið ef Reykjavíkurborg hefði borið athugasemdir í úttektinni undir skólana sjálfa áður en hún var birt. Úttektin var gerð í mars. Í henni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við háar arðgreiðslur einkarekinna leikskóla.

Alma segir að heppilegra hefði verið að ræða beint við þá skóla sem athugasemdir snúa að, til að leita skýringa, áður en úttektin var birt.

„Í tilviki eins skóla er hreinlega verið að segja rangt frá. Það er vísað í ólöglegan gjörning en engra skýringa leitað.“ Alma segist þó ekki geta tjáð sig um einstaka skóla. Hún telur að það hefði verið heillavænlegt hjá innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar að vera í sambandi við samtökin og einstaka skóla til að dýpka úttektina.

Alma segir að jafnvel þótt athugasemd feli ekki í sér rangfærslu, gætu verið eðlilegar skýringar á málinu og skólinn ekki að misnota fjárveitingar borgarinnar. „Í allri umfjöllun er verið að ýja að því að verið sé að fara illa með almannafé.“

Í yfirlýsingu Samtaka sjálfstæðra skóla segjast samtökin fagna málefnalegri umfjöllun „sem kallar bæði á að fyrir liggi gagnsæjar og skýrar reglur og að í samskiptum Reykjavíkurborgar og leikskóla innan borgarinnar liggi fyrir skýr markmið, mælikvarðar og aðgerðir.“

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ LESA ALLA FRÉTTINA