Fréttatilkynning send til fjölmiðla 18.11.2016
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu fyrr í dag að innflutningsbann á fersku kjöti fæli í sér brot gagnvart EES-skuldbindingum íslenska ríkisins og er því ólögmætt. Niðurstaða dómsins er því í fullu samræmi við fyrri ábendingar SVÞ en samtökin hafa undanfarin ár vakið athygli á málinu og barist fyrir afnámi bannsins en upphaf málsins má rekja til kvörtunar samtakanna til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem ESA komst að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi innflutningsbann á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstætt EES-samningnum.

Ferskar kjötvörur ehf., eitt aðildarfyrirtækja SVÞ, stefndi íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir sökum synjunar á heimild til að flytja til landsins frá Hollandi ferskt lífrænt ræktað nautakjöt. Undir rekstri málsins krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn. Var fallist á þá beiðni og var niðurstaða dómstólsins að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur er ekki fullt samræmi á milli EES-löggjafar og íslenskra laga og sýnist misræmið felast í því að innflutningur á fersku kjöti frá öðru aðildarríki EES-samningsins er háður sérstöku leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auk þess sem þess er krafist að innfluttum matvælum fylgi tiltekin gögn og vottorð. Þvert á móti gerir EES-löggjöfin á hinn bóginn að meginstefnu til ráð fyrir því að ábyrgð á dýraheilbrigðiseftirliti matvæla er hjá því aðildarríki sem matvælin eru send frá, í þessu tilviki Hollandi, og að sérstakt eftirlit fer ekki fram á landamærum viðtökuríkis. Því beri íslenskum stjórnvöldum að virða niðurstöður dýraheilbrigðiseftirlit sem fram fer í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur. Þá segir í dóminum að þar sem íslenska ríkið hafi viðhaldið banninu þrátt fyrir niðurstöðu eftirlitsaðila þá hafi slíkt falið í sér vísvitandi og alvarlegt brot gegn skuldbindingum ríkisins.

SVÞ fagna þessum áfanga í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi innflutningsbann á fersku kjöti frá aðildarríkjum EES-samningsins gangi gegn ákvæðum samningsins og samningsskuldbindingum íslenska ríkisins líkt og ESA og EFTA-dómstóllinn, og nú Héraðsdómur Reykjavíkur, hafa áður komist að. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.

Nánari upplýsingar gefa:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SVÞ, s. 511-3007/862-0558

Fréttatilkynning á pdf sniði