Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar hófst jólaverslunin í nóvember með miklum krafti eins og sjá má af veltutölum verslana fyrir mánuðinn. Black Friday virðist hafa haft hvetjandi áhrif á verslun. Þannig jókst sala á stórum raf- og heimilistækjum um fjórðung frá sama mánuði í fyrra og aukning í sölu minni raftækja, eins og sjónvörpum, um 15%. Húsgagnaverslun var einnig blómleg í mánuðinum, eins og verið hefur það sem af er árinu. Sala á húsgögnum var 17,3% meiri í nóvember sl. en fyrir ári síðan.

Athyglisvert er að sala á fötum og skóm tók mikinn kipp í nóvember. Þannig var sala á fötum 12,7% meiri en í nóvember í fyrra og sala á skóm jókst um 16% á sama tólf mánaða tímabili. Þetta er töluverð breyting frá því sem verið hefur undanfarna mánuði. Líklega gætir áhrifa Black Friday í þessum vexti því margar fataverslanir höfðu útsölu þann dag í nóvember síðastliðnum sem ekki var í samanburðarmánuðinum í fyrra. Annar stór útsöludagur á fötum í nóvember er nefndur „Miðnætursprengja Kringlunnar“ og talið er að hafi haft nokkur áhrif á söluaukningu. Verð á fötum var 3,3% lægra í nóvember en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar.

Velta dagvöruverslana eykst jafnt og þétt. Í nóvember jókst sala dagvöruverslana um 6,3% frá nóvember í fyrra og virðast landsmenn ætla að gera vel við sig fyrir jólin bæði í mat og drykk í tilefni árstíðarinnar. Verð á dagvöru fer lækkandi og var 0,6% lægra en fyrir ári síðan.

Óvenjulegt er að sjá samdrátt í sölu snjallsíma. En í nóvember var salan 3,9% minni en í sama mánuði í fyrra. Líklega er hér frekar um að ræða mánaðarsveiflur frekar en að markaðurinn sé mettaður vegna mikillar sölu undanfarna mánuði og ár. Venjulega er hægt að greina miklar sveiflur í sölu þegar vinsælir nýir símar koma á markað.
Spurnir eru af töluverðri aukningu í innkaupaferðum Íslendinga til útlanda fyrir þessi jól vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar og því má gera ráð fyrir að hluti af jólainnkaupunum fari þar fram.  Kreditkortavelta Íslendinga erlendis í nóvember síðastliðnum var 25% meiri en í nóvember í fyrra og nam 9,6 milljörðum kr. Á móti kemur að greiðslukortavelta útlendinga hér á landi í nóvember nam 15,4 milljörðum kr. sem er 68% aukning í kortaveltu frá nóvember í fyrra.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 6,3% á breytilegu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í nóvember um 5,4% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,6% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í nóvember 0,8% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 24,7% á breytilegu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 23,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í nóvember um 19,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,6% hærra í nóvember síðastliðnum og 0,3% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun jókst um 12,7% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 16,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,3% lægra í nóvember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 16% í nóvember á breytilegu verðlagi og jókst um 21,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 22,7% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í nóvember um 4,9% frá nóvember í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 17,3% meiri í nóvember en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 13,6% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 32,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 13,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 3,2% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í nóvember um 3,1% í nóvember á breytilegu verðlagi og jókst um 2,8% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,3% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum minnkaði í nóvember um 9,4% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 12,2%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 1,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 14,6% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynningin á pdf sniði.