Í takt við aukinn kaupmátt og vöxt í einkaneyslu jókst verslun í desember eins og við var að búast samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar. Neyslumynstrið í jólaversluninni hefur samt breyst nokkuð og fer hún nú fyrr af stað en áður. Þannig var hærra hlutfall jólaverslunar sem fór fram í nóvember en áður hefur sést. Líklega hefur Black Friday og aðrir söluhvetjandi viðburðir í nóvember áhrif á þessa þróun.

Töluverður munur var á veltu hinna ýmsu tegunda verslunar á milli vöruflokka í desember á nafnverði í samanburði við desember árið áður. Þannig varð 1,7% samdráttur í veltu fataverslana og 2,8% samdráttur í skóverslun. Á sama tíma jókst velta í húsgögnum um 31,9%,  velta stórra raftækja jókst um 12,6% og í byggingavöruverslunum var aukningin 21,8%. Veltuaukning í dagvöru í desember var hófsamari, eða sem nam 3,6% að nafnvirði.

Verðlækkun hefur orðið í flestum vöruflokkum. Þannig lækkaði verð á dagvöru um 0,7% frá desember árinu áður, verð á fötum var 5,9% lægra, 2,2% verðlækkun var á skóm og húsgögn lækkuðu um 1,2%. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum verðbreytingum sjást raunbreytingar í veltu. Þannig jókst sala á fötum að raunvirði um 4,5% og velta svokallaðra brúnna raftækja (sjónvörp og minni raftæki) um 22,5%. Samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar hefur verð á snjallsímum lækkað um 9,3% á einu ári. Sala snjallsíma í desember var að raunvirði 10% meiri en fyrir ári.

Erlend netverslun – 64% aukning í desember
Í desember jókst fjöldi þeirra pakkasendinga sem Íslandspóstur sá um dreifingu á frá útlöndum, og ætla má að sé vegna netverslunar, um 64% frá sama mánuði árið áður.  Í nóvember og desember samanlagt nam þessi ársaukning pakkasendinga 61% . Mest aukning sendinga var frá Kína og öðrum Asíulöndum.

Þannig má ætla að Íslendingar hafi gert töluvert af jólainnkaupunum erlendis fyrir jólin. Bæði gegnum erlendar netverslanir og auk þess var mikil aukning í ferðir til útlanda síðustu tvo mánuði ársins. Brottfarir Íslendinga til útlanda gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar, samkvæmt talningu Ferðamálastofu, voru alls 86.424 (um 26% þjóðarinnar) í nóvember og desember, sem er 26% aukning í fjölda farþega frá sömu mánuðum árið áður.

Jólaverslun útlendinga á Íslandi
Á móti aukinni verslun Íslendinga erlendis kemur mikill vöxtur í verslun erlendra ferðamanna hér á landi. Í desember greiddu erlendir ferðamenn með greiðslukortum sínum í íslenskum verslunum fyrir liðlega tvo milljarða króna. Það er fjórðungsaukning frá desember árið áður. Stærstur hluti erlendrar kortaveltu í verslunum í desember var til kaupa á dagvöru, eða 467 millj. kr.

Velta í dagvöruverslun jókst um 3,6% á breytilegu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,3% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í desember um 3,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í desember 0,4% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 17,9% á breytilegu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 17,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í desember um 8,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í desember síðastliðnum og 0,5% lægra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun dróst saman um 1,7% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 4,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,9% lægra í desember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 2,8% í desember á breytilegu verðlagi og minnkaði um 0,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 0,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í desember um 2,2% frá desember í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 31,9% meiri í desember en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,5% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 49,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 34,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 1,2% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í desember um 21,8% í desember á breytilegu verðlagi og jókst um 22,5% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,5% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 17,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta í sölu á tölvum jókst í desember um 2,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 0,3%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 3,3% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 12,6% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.