Samtök verslunar og þjónustu kynnir leiðtoga ágúst mánaðar!

Helga Birna Brynjólfsdóttir, sviðsstjóri skrifstofu og þjónustu hjá JÁ

En hver er Helga Birna? Fyrir hverju brennur hún og hvað er hún að gera þessi misserin?

Við byrjum á að biðja Helgu Birnu að segja okkur frá starfinu sínu, hvað einkennir það?

Sem sviðstjóri skrifstofu og þjónustu þá mundi ég segja að starfið einkennist af samvinnu við alla á skrifstofunni. Hvort sem það er að upplýsa um rekstrartölur, viðhalda þjónustu í 1818, innleiða jafnlaunavottun, vökva blómin og allt þar á milli.

Hvað er skemmtilegast við starfið?

Það er auðvelt að svara þessari spurningu, það er starfsfólkið 😉 

Það er ótrúlega skemmtilegt og metnaðarfullir starfsfólk sem vinna hér. Umhyggjan á vinnustaðnum er mikil og sýnir það sig að fólk leggur sig fram við að hjálpa hvort öðru í starfi og utan vinnu. Það er auðvelt að ræða verkefnin sem eru í gangi og spegla þau við starfsemina. Með því að ræða málin koma oft nýir vinklar á verkefnin sem hjálpar okkur að þróast.

Hvernig viðheldurðu ástríðunni fyrir starfinu?

Það gefum mér mestu orkuna í vinnunni að sjá framfarir og ánægju starfsmanna. Þegar við höfum verið að vinna að einhverju verkefni og við sjáum starfsfólk vaxa og eflast, þá fæ ég algjört kikk. Þetta er svona eins og ef ég væri að þjálfa handbolta og væri búin að vera æfa einhverja taktík sem gengur svo upp í leikjum, 1-0! Þá hoppa ég af kæti.

Hvernig er hinn staðlaði vinnudagur?

Ég er svo heppin að dagarnir eru fjölbreyttir hjá mér, það fer eiginlega eftir því hvaða tími mánaðar er, hver verkefnin eru. Þar sem ég er með marga hatta þá fara oft dagarnir í lok mánaðar í að klára mánaðaruppgjör, senda út reikninga og sjá til þess að allar kröfur séu greiddar, það þarf allt að skila sér í bókhaldið. Svo koma verkefni inn á milli eins og umhverfisstefnan, jafnlaunavottun, öryggi í vinnuumhverfi og þess háttar sem þarf að innleiða og viðhalda.

Hvaða vana myndir þú vilja breyta?

Oft finnst mér svo mörg spennandi verkefni í gangi og mig langar að taka þátt í öllu. Það þýðir að of margir boltar eru á lofti. Þá er mikilvægt að forgangsraða sem getur oft verið snúið. Sum verkefni eru skemmtilegri en önnur en hafa minni forgang. Það er hlutur sem ég þarf að breyta í vinnulagi mínu, bæta forgangsröðun.

Ef þú værir bíll, hvaða bíll værir þú? Hvernig myndir þú lýsa þér?

Ég væri vel bónaður grænn sportbíll sem er kraftmikill og tekur góða spretti. Hann er kvikur, ferskur og sportlegur því ég elska allar íþróttir. Grænn er uppáhalds liturinn minn.

Hvað ertu að læra/lesa/bæta við þekkingu?

Ég er í stjórn handknattleiksdeildar Víkings og það hefur kennt mér ýmislegt. Í svona sjálfboðavinnu þarf að ganga í öll verk og vinna óeigingjarnt starf. Þá er lykillinn að hafa gaman, ef við gerum leiðinleg verkefni skemmtileg þá er það engin fórn heldur bara árangur.

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

Þessa dagana er ég mest að vinna í uppgjöri þar sem mánuðurinn er að klárast. Svo erum við að jafnlaunavotta fyrirtækið sem þarf að klárast fyrir áramót þannig að mikil vinna fer í það. Við erum líka að breyta ja.is vefsíðunni okkar þar sem sjálfsafgreiðslan verður meiri og viðskiptavinir geta uppfært upplýsingarnar á vefnum sjálfir. Þetta er verkefni sem er búið að vera í gangi lengi og við erum núna að sjá blómið blómstra. Svo verð ég að minnast á vöruleitina á ja.is því hún er algjör snilld, mæli með að skoða hana þegar þú ert að leita að einhverju.

Stafræn þróun, sjálfbærni og símenntun og endurmenntun er mál málanna í dag. Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi?

Já gaf út símaskrá á sínum tíma, nú er hún komin á ja.is og við erum svo að fara enn lengra með það verkefni og færa skráningar í sjálfsafgreiðslu með allri þeirri stafrænu þjónustu sem því fylgir.

Gallup hefur einnig verið að þróa nýtt platform þar sem viðskiptavinir geta sótt gögn og upplýsingar á aðgengilegan hátt með fjölbreyttri gagnvirkni. Starfsmannarannsóknir Gallup voru að innleiða sjálfsafgreiðslulausn sem heldur utan um vinnustaðakannanir þar sem fyrirtæki geta valið spurningar úr stórum gagnabanka af sannprófuðum spurningum og fengið niðurstöður birtar strax ásamt samanburði við önnur fyrirtæki, bæði á heimsvísu sem og innanlands.
Í allri þessari þróun innan fyrirtækisins fylgir heilmikill lærdómur fyrir starfsfólk og nýjar áskoranir.

 

________________________________________________________________________________________

Um JÁ:

Já hf. samanstendur af ja.is, 1818, Gallup og Markaðsgreiningar. Vörumerkin eru öll á sviði upplýsingatækni á Íslandi þar sem Já hf. auðveldar viðskipti, samskipti og ákvarðanatöku viðskiptavina og hefur verið í Samtökum verslunar og þjónustu frá árinu 2010.

________________________________________________________________________________________

SVÞ leitar eftir tilnefningum til leiðtoga mánaðarins.  Hver er að gera góða hluti í kringum þig og hafa jákvæð áhrif á samfélagið?
SMELLTU HÉR til að tilnefna þinn leiðtoga.