Leiðtogi nóvember mánaðar hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu er Berglind R Guðmundsdóttir, innkaupastjóri ELKO.

En hver er Berglind og hvað er hún að sýsla þessa dagana?  Við báðum Berglindi um að gefa okkur innsýn inní líf innkaupastjóra ELKO og byrjuðum á því að spyrja útí starfið hennar. 

Starfið er mjög skemmtilegt, fjölbreytt og ótrúlega lifandi. Ég leiði innkaupasvið ELKO en undir það fellur allt sem snýr að innkaupum og vörustýringu; frá pöntunum, flutningi, tollun og innsetningu allra vara sem eru til sölu í ELKO á vef. Undir sviðið fellur einnig að finna nýjar og spennandi vörur til að bjóða viðskiptavinum og koma til móts við þarfir viðskiptavina enda er það sem skiptir þig máli skiptir okkur máli sem er loforð ELKO og við höfum það að leiðarljósi ásamt stefnunni sem er að hjálpa öllum að njóta ótrúlegar tækni. 

Hvað er skemmtilegast við starfið?

Hversu lifandi það er og enginn dagur er eins, líkt og öll sem eru í smásölugeiranum þekkja. Svo eru að sjálfsögðu öll frábæru samstarfsfélagarnir sem eru jafn ólík og þau eru mörg sem gera starfið skemmtilegt og gefandi en eins og öll vita þá gerast töfrar þegar teymi vinna vel saman.

Nú vitum við að það skiptir miklu máli að hafa ástríðu fyrir starfinu sínu. Hvað hefur þú gert til að viðhalda ástríðunni fyrir starfinu þínu?  

Með því að sækja mér meiri þekkingu í gegnum nýjar áskoranir og vinna með fólki sem hefur ástríðu fyrir því sem þau gera.

Segðu okkur frá þínum staðlaða vinnudag? 

Enginn dagur er eins, en flesta daga eru fundir með fólki innan ELKO, innan Festi og svo með birgjum. Hef gaman af því að hafa nóg að gera og vera með góða yfirsýn yfir þau verkefni sem liggja fyrir. Finnst best að byrja vinnudaginn á kaffibolla með samstarfsfólki og léttu spjalli áður en dagskrá dagsins hefst, er yfirleitt búin að renna hratt yfir tölvupóstinn og helstu atriði áður en ég mæti á skrifstofuna.

Hvaða vana eða venju langar þig til að breyta?

Er ekki viss um að það sé einhver vani sem ég myndi vilja breyta, kannski fækka kaffibollunum á daginn.

Ef þú værir bíll, hvernig bíll værir þú?

Já það er nú það, kannski bara Audi; traust, áreiðanleg og nýjungagjörn.

Hvað ertu að læra/lesa/bæta við þekkingu þessi misserin?

Hlusta töluvert á hlaðvörp, t.d. Athafnafólk með Sesselju Vilhjálmsdóttur, er í FKA til að bæta við tengslanet og þekkingu. Læri einnig mjög mikið af samstarfsfólkinu sem og fjölskyldu og vinum sem öll hafa mismunandi þekkingu og reynslu til að deila. Sæki auk þess námskeið reglulega til að auka færni og bæta þekkingu.

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á áætlun næsta árs ásamt undirbúningi útsölunnar sem hefst strax á milli jóla og nýárs. Einnig er undirbúningur talningar sem er í janúar hafinn og svo eru önnur verkefni sem snúa að því að einfalda og betrumbæta innkaupaferla ásamt öðrum spennandi verkefnum sem koma ný inn þessa dagana.

Stafræn þróun, sjálfbærni og símenntun og endurmenntun er mál málanna í dag.  Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi? 

Sjálfbærni, samfélagsleg og umhverfisleg sjónarmið hafa verið ofarlega á baugi hjá ELKO síðustu ár og munu verða það áfram. ELKO hefur í gegnum árin sett aukna áherslu á umhverfismál þar sem kappkostað er við að draga úr kolefnisspori með markvissri flokkun úrgangs, móttöku og endursölu á notuðum búnaði, rafrænum reikningum, flokkun og orkusparnaði svo dæmi séu tekin.

ELKO er ábyrgt fyrirtæki sem leggur metnað í störf sín með skilvirkni og framsýni að leiðarljósi og hefur fyrirtækið sett sér stefnu til framtíðar um að leggja áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð.

Stafræn þróun er okkur í ELKO hugleikin en með nýjum vef hefur upplifun viðskiptavina á að versla á vefnum tekið stakkaskiptum. Það sem snýr að innkaupasviði þá hafa ferlar verið einfaldaðir og gerðir stafrænir, minnkuðum alla pappírsnotkun um 95% á síðustu tveimur árum, leitumst við að finna og bjóða vörur sem eru betri fyrir umhverfið að því leiti að þær eru úr endurunnum efnum sem og bjóða hringrásarvörur, þeas vörur sem eru endurunnar, t.d. iPhone símar og Apple úr.

Varðandi símenntun  og endurmenntun þá stendur öllu starfsfólki ELKO til boða að sækja rafræn námskeið hjá Akademias, fyrirlestra hjá Dokkunni og Stjórnvísi sér að kostnaðarlausu og vet ég folk til að nýta sér þetta ásamt því að það er veittur sveigjanleiki í vinnu ef fólk er að sækja sér meiri menntun.

_______

Um ELKO:

ELKO er stærsta raftækjaverslun landsins en verslunin opnaði þann 28. febrúar árið 1998 og varð strax leiðandi á sínu sviði á Íslandi. ELKO rekur sex verslanir sem staðsettar eru í Lindum, Skeifunni, Granda, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Akureyri og Vefverslun elko.is. Starfsmenn félagsins eru yfir 200 og er fyrirtækið 100% í eigu Festi hf. Frá fyrsta degi hefur ELKO keppt á forsendum þess að bjóða þekkt vörumerki raftækja á lægra verði ásamt góðri þjónustu sem til dæmis samanstendur af 30 daga skilarétti, framlengdum skilarétti á jólagjöfum og fermingargjöfum (allt að 105 daga skilaréttur) og 30 daga verðöryggi á vörum ELKO sem keyptar eru í ELKO. 

ELKO hefur verið í Samtökum verslunar og þjónustu frá árinu 2008.

_______

Hver er að gera góða hluti í þínu umhverfi?

SVÞ leitar af fólki innan samtakanna sem er að gera góða hluti.  Hver er leiðtoginn þinn?
Smelltu hér til að tilnefna þinn leiðtoga.