Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin, Samtök skattgreiðenda, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráð Íslands hafa birt sameiginlega auglýsingu vegna nýsamþykktra búvörusamninga. Samningarnir voru staðfestir með nítján greiddum atkvæðum á Alþingi án þess að tekið hafi verið tillit til framangreindra tillagna. Telja framangreind samtök að með afgreiðslu sinni hafi Alþingi mistekist að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda.
Í aðdraganda nýgerðra búvörusamninga óskuðu samtökin þess að stjórnvöld gættu hagsmuna alls almennings umfram sérhagsmuni einstakra starfsgreina enda hafa þessir samningar áhrif á fleiri aðila en þá sem að þeim koma með beinum hætti, samtök bænda og ríkið. Með vísan til tillagna verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, þverpólitísks og þverfaglegs vettvangs sem ætlað er að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið, óskuðu samtökin þess að búvörusamningar hefðu m.a. að markmiði að:
1. Lækka matvælaverð til neytenda.
2. Tryggja rekstargrunn landbúnaðar sem atvinnugreinar.
3. Niðurgreiðslur færist frá sértækum búgreinastuðningi í átt að almennari jarðræktarstuðningi.
4. Stuðla að aukinni samkeppni á búvörumarkaði.
5. Lækka tolla á landbúnaðarvörum um 50% og afnema tolla á alifuglum og svínakjöti.
Til að bregðast við harðri gagnrýni á búvörusamninga kallaði meirihluti atvinnuveganefndar eftir þjóðarsamtali um landbúnað með aðkomu neytenda, samtaka launafólks og atvinnulífs. Ljóst er að loforð um endurskoðun var brotið og búvörusamningar festa í sessi óskilvirkt og kostnaðarsamt landbúnaðarkerfi þar sem bændur hafa fullt vald til að hafna öllum þeim breytingum sem þeim hugnast illa.
Alþingi hefur því samþykkt búvörusamninga til tíu ára án þess að taka tillit til framangreindra sjónarmiða og þannig brugðist skyldu sinni að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda. Að sama skapi standast ekki nánari skoðun fullyrðingar einstakra þingmanna og ráðherra um að samningarnir gildi eingöngu til þriggja ára.
Er það því brýnt verkefni komandi þings að stuðla að sátt í þessu máli. Það er skýr krafa framangreindra samtaka að nýtt þing endurskoði núverandi landbúnaðarkerfi með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Sátt um íslenskan landbúnað er öllum til hagsbóta, ekki síst bændunum sjálfum.