Lög á pappír eru ekki nóg…

“Þeir sem setja lög og reglur hafa ekki sinnt skyldu sinni fyrr en þeir hafa gengið svo frá viðkomandi lögum og reglum að hægt sé að fara eftir þeim í raun.” Svo segir formaður IRU – alþjóðlegra samtaka atvinnubílstjóra í fréttatilkynningu samtakanna nýverið í kjölfar nýrrar reglugerðar Evrópusambandsins um aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra sem tók gildi 11. apríl sl. 

Í tilefni af því að ný reglugerð um aksturs- og hvíldartíma tók gildi innan sambandsins sendu samtökin frá sér harðorðar yfirlýsingar þar sem þau skora á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarlöndin að hefja nú þegar vinnu við að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig túlka skuli reglur bæði um aksturs- og hvíldartíma og reglugerð um rafræna ökurita, en hin síðarnefnda var tekin upp hér á landi á síðasta ári. Orðrétt segir m.a. í fréttatilkynningu IRU: “Nýjar aksturs- og hvíldartímareglur þrengja enn frekar að starfsumhverfi vöruflutninga innan Evrópusambandsins og geta haft afgerandi áhrif í þá átt að minnka skilvirkni flutninga og raunar evrópsks efnahagslífs í heild sinni. 

Flutningasvið SVÞ tekur heilshugar undir gagnrýni kollega sinna í Evrópu og skorar á ráðuneyti samgöngumála á Íslandi að koma gagnrýni á umræddar reglugerðir á framfæri við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í Brussel. Það er morgunljóst hverjum þeim sem kynnir sér starfsumhverfi atvinnubílstjóra að þar hefur framkvæmdastjórnin farið offari við setningu reglna. Svo mjög hefur verið þrengt að starfsumhverfi atvinnubílstjóra síðustu ár, að nú er svo komið að það er nánast ómögulegt að fá menn til að starfa við greinina. Var það helsta áhyggjuefni flutningahóps innan BUSINESSEUROPE – samtaka atvinnulífs Evrópu í Brussel á dögunum.

Reglugerðin um aksturs- og hvíldartíma er einstök að mörgu leyti. Hún gerir kröfu til þess að sá sem undir henni starfar sé sífellt með það á heilanum hvað hann hafi nú unnið margar klst. síðustu vikur og hvort hann hafi nú örugglega tekið nægilega margar klst. í frí fyrir tveimur vikum síðan. Það er full ástæða til að krefja það fólk sem býr til slíkar reglur um raunhæfa úttekt og skoðun á því hvaða afleiðingar slík reglugerðarsetning hefur í för með sér. Það er ljóst að viðkomandi reglur eru settar undir merkjum umferðaröryggis, en.hefur verið gerð einhver úttekt á því hvort þessar reglur muni auka öryggi umferðar innan Evrópusambandsins? Hefur verið gerð einhver úttekt á því hvernig atvinnubílstjórum líkar að starfa undir þessum reglum? Getur verið að svo nákvæmar og einstrengilegar reglur verði kannski fremur til þess að auka streitu atvinnubílstjóra og þar með minnka aksturshæfni þeirra í umferðinni fremur en hitt? 

Það er fyllsta ástæða til að kanna hvort að sú geti verið raunin hér á landi. Eins og fram kom hjá SA fyrir stuttu síðan er gríðarleg óánægja með viðkomandi reglur á meðal íslenskra atvinnubílstjóra. Er það eitt og sér ekki nægilegt tilefni til að gerð verði rækileg úttekt á því hvort þeir hafi mögulega eitthvað til síns máls? Getur verið að fólk sem starfar við skrifborð innan fjögurra veggja frá morgni til kvölds fari offari í því að setja íþyngjandi og þröngar reglur fyrir aðra en það sjálft? Allt undir þeim formerkjum að tryggja öryggi? Öryggi hverra?

SVÞ hafa óskað eftir að stjórnvöld leiti allra leiða til að aðlaga reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna við aðstæður hér á landi um leið og þau tryggi meginmarkmiðið sem hlýtur að vera aukið umferðaröryggi.

(Grein úr Fréttapósti SVÞ frá 18.04. 2007)