Löggjöf fyrir eftirlitsstofnanir?

Undirrituð hefur setið marga fundi síðustu misserin þar sem fundarefnin eru innleiðingar og aðlögun Evrópureglugerða og/eða tilskipana inn í íslenskan rétt. Fyrirsögn þessarar greinar er „löggjöf fyrir eftirlitsstofnanir?" og lýsir því hvernig sú er þetta ritar hefur kynnst þessu umhverfi. Svo virðist sem metnaður og vilji íslenskrar stjórnsýslu (hvað flutningagreinina varðar alla vega) til innleiðingar Evrópureglugerða, sé fyrst og fremst vegna þrýstings frá ESA – Eftirlitsstofnun EFTA. 

Á mörgum fundum með stjórnsýslustofnunum sem fara með málaflokkinn samgöngumál kemur þessi áminning frá lögfræðingum viðkomandi stofnana: „..að nauðsynlegt sé að flýta upptöku reglugerðarinnar eins og kostur er og koma henni í framkvæmd, því annars sé von á athugasemdum frá ESA". Engin ástæða er til að efast um að þetta sé sannleikanum samkvæmt. ESA hefur áreiðanlega strangt eftirlit með því að reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins, sem undir EES samninginn falla, séu teknar upp og komið í framkvæmd hér á landi. Það sem aftur á móti er ástæða til velta upp er hvort hægt sé að una við þetta viðhorf? Getum við, til lengri tíma litið, búið í lagaumhverfi þar sem metnaður og vilji íslenskrar stjórnsýslu snýr að því að mæta kröfum eftirlitsstofnunar, en aðstæður og þarfir íslensks atvinnulífs eru aukaatriði?

Það þarf ekki að benda á að Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu. Samt er það svo að í því umhverfi sem hér er lýst er sjálfvirkni kerfisins við upptöku Evrópureglugerða og tilskipana nánast algjör. Stjórnsýslustofnanirnar sem um ræðir hafa flestar á að skipa lögfræðingum sem fylgjast grannt með því sem er að gerast innan Evrópusambandsins og sýna mikinn metnað í þá átt að vera fljótir til og í mörgum tilfellum helst að taka upp viðkomandi reglur samhliða Evrópusambandinu.  Jafnvel að vera fyrri til og sýna þannig gott fordæmi. Ekki leikur vafi á að metnaður íslenskrar stjórnsýslu er að vera í fararbroddi við útfærslu og framkvæmd Evrópureglna og þess eru dæmi að embættismenn annarra þjóða leiti fyrirmynda hingað. 

Þetta ferli þýðir að æ ofan í æ gerist það að verið er að vinna að breytingum, jafnvel stórfelldum, á íslensku starfsumhverfi innan íslenskra stjórnsýslustofnana þar sem markmiðið er á að standa sig í stykkinu gagnvart erlendri eftirlitsstofnun, en ekkert tillit er tekið til þess hvernig viðkomandi reglur koma við íslensk fyrirtæki. Því síður kemur til álita hvort það sé yfirleitt þörf fyrir þessar reglur í landinu. Sú spurning kemur einfaldlega ekki upp.

Flutningagreinin býr við starfsumhverfi sem er að heita má alfarið búið til á meginlandi Evrópu og flutt inn til Íslands. Alþingismenn fría sig ítrekað ábyrgð þegar útfærsla og framkvæmd Evrópureglna er annars vegar og ráðuneytin gefa ríkisstofnunum sjálfdæmi um að fylgjast grannt með þróun sinna málaflokka innan Evrópusambandsins. Ríkisstofnanirnar fá nánast sjálfdæmi um innleiðingu og framkvæmd. Það er ástæða til að spyrja hvaða hlutverk Alþingi og ráðuneyti hafa í þessu umhverfi. Þetta ferli í íslenskri löggjöf og stjórnsýslu þarfnast í það minnsta umræðu þeirra sem halda um stjórnvölinn.

Grein birt í Morgunblaðinu 12. febrúar 2008