Lyfjasmásala á Íslandi – Skýringar og staðreyndir

Umræða um lyfjamál, einkum lyfjakostnað, hefur verið ofarlega á baugi í samfélaginu síðustu misseri og er henni gjarnan fylgt eftir með samanburði við nágrannalöndin. Einblínt er á beinan útlagðan kostnað vegna lyfja en ávinningur lyfjameðferðar virðist gleymast í umræðunni. Einnig gætir nokkurs misskilnings um lyfjaverð og lyfjakostnað auk þess sem samanburður við nágrannalöndin á ekki alltaf við vegna smæðar íslenska markaðarins.
Lyfsalahópur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu – hefur gert þessa samantekt um lyfjamál og er hún að mestu unnin upp úr greinargerð vinnuhóps lyfjagreiðslunefndar og lyfsalahóps SVÞ frá því í júní 2006, tillögum lyfjasmásala um lækkun á lyfjaverði til lyfjagreiðslunefndar í október 2007 og Síriti FÍS um lyfjamál (www.fis.is). Lyfsalahópurinn vill sýna vilja í verki og takast á við vanda heilbrigðiskerfisins á uppbyggilegan hátt og í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.

 

 
Þjóðfélagslegur ávinningur lyfjanotkunar
Lyf leika stórt hlutverk í heilbrigðiskerfinu og eru mikilvægur hlekkur í þeirri keðju að halda öðrum heilbrigðiskostnaði í skefjum. Ábati þjóðfélagsins af lyfjum er ótvírætt mun meiri en kostnaður.

Lyfjakostnaður er ekki sama og lyfjaverð
Oft ber við að hugtökunum lyfjakostnaði og lyfjaverði er ruglað saman.
Lyfjaverð: Samanstendur af því verði sem lyfsala greiðir heildsala eða öðrum söluaðila lyfja og álagningu lyfsölu á heildsöluverðið. Álagning lyfseðilsskyldra lyfja er ákveðin af hinu opinbera.
Lyfjakostnaður: Sá kostnaður sem greiðendur lyfja þurfa að inna af hendi við lyfjakaup að viðbættum virðisaukaskatti sem ríkið innheimtir af kaupendum lyfjanna. Greiðendur lyfjanna geta verið sjúklingar, heilbrigðisstofnanir og Tryggingastofnun ríkisins.

 

bola_verd.jpg

 

Lyfjaverð á Íslandi
Verðmyndun lyfja
Lyfjaverð er ákveðið af hinu opinbera, ef undan eru skilin lausasölulyf. Ástæður þess að lyfjaverð er ekki í öllum tilfellum frjálst eru aðallega  tvær. Í fyrsta lagi eru lyf ekki almenn neysluvara, heldur hluti af heilbrigðis­tækni sem lýtur ströngum gæða­kröfum yfirvalda í framleiðslu og dreifingu. Þar af leiðandi eru margar kvaðir settar á framleiðendur og dreifingaraðila sem gerir verðmyndun flóknari en á annarri vöru. Í öðru lagi er í flestum tilfellum aðeins einn aðalkaupandi lyfja, þ.e. ríkið, sem endurgreiðir stóran hluta lyfjakostnaðar sjúklinga.

 Krafa um íslenskan fylgiseðil
Samkvæmt tilskipun frá ESB er öllum aðildarlöndum að samningi um Evrópska efnahagssvæðið skylt að hafa fylgiseðla á eigin tungumáli með lyfjum sem skráð eru í landinu. Til að framfylgja þessari tilskipun á Íslandi þurfa markaðsleyfishafar / lyfjaheildsalar oft að rjúfa pakkningar til þess að fjarlægja erlenda fylgiseðla, bæta við íslenskum fylgiseðlum og stundum að líma yfir áletrun skv. skráningu lyfsins á Íslandi.

Heildsöluverð lyfja

Lyfjaverð í heildsölu hefur farið lækkandi á undanförnum árum í kjölfar samkomulags lyfjaframleiðenda og innflytjenda og heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins frá því í júlí 2004. Frá þeim tíma hefur heildsöluverð lyfja lækkað um 13-15%. Á sama tíma hafa orðið verulegar hækkanir á öllum kostnaðarliðum, einkum launa- og húsnæðiskostnaði.

Smásöluverð lyfja
Álagning apóteka á lyfseðilsskyld lyf hefur lækkað verulega síðustu ár. Frá árinu 1996 þegar smásöluverslun lyfja var gefin frjáls hefur álagningin lækkað úr rúmum 60% í tæp 35%. Álagningin er áþekk því sem er á öðrum Norðurlöndum.

bola_vsk.jpg

 

Virðisaukaskattur á lyf
Virðisaukaskattur á lyf er 24,5% hér á landi. Í sumum löndum er ekki lagður virðisauka­skattur á lyfseðilsskyld lyf og annars staðar er hann lægri en almennur virðisaukaskattur.

 
 
 
 

Rekstrarumhverfi íslenskra lyfjaverslana
Fjöldi apóteka og samkeppni
Allir geta opnað apótek á Íslandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ísland er stórt land en fámennt. Þess vegna eru færri íbúar að baki hverju apóteki hér landi en á öðrum Norðurlöndum. Það er ekki skortur á samkeppni í íslenskri lyfjasmásölu. Á þeim stöðum á landinu þar sem markaður er nógu stór eru tvö eða fleiri apótek sem eiga í samkeppni. Á öðrum svæðum á landsbyggðinni eru staðsetningar apóteka að mestu leyti eins og var fyrir 1996 þegar lyfsöluleyfum var úthlutað.

Kröfur um mönnun lyfjaverslana
Eðli málsins samkvæmt eru gerðar mun meiri kröfur til lyfjaverslunar en annarrar verslunar. Í 31. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 (með síðari breytingum) er kveðið á um að lyfjafræðingar eða aðstoðarlyfjafræðingar beri ábyrgð á afgreiðslu lyfseðils. Þar segir að í lyfjabúð skuli að jafnaði vera að störfum eigi færri en tveir lyfjafræðingar við afgreiðslu lyfseðla og fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja. Undanþágur eru þó veittar frá þessari reglu fari fjöldi viðskiptavina sem afgreiddur er niður fyrir ákveðið lágmark  en í þeim tilvikum er heimilað að einn lyfjafræðingur sjái um lyfjaafgreiðslu ásamt öðru aðstoðarfólki.

Opinber gjöld
Apótek, lyfjasölur lækna og lyfjasölur sveitarfélaga greiða eftirlitsgjald sem getur numið 0,3% af heildarfjárhæð greiðslu Tryggingastofnunar ríkisins. Gjaldið rennur til Lyfjastofnunar til að standa undir eftirliti.

Einn framleiðandi
Lyfjaverslanir hér á landi geta einungis keypt sömu vörumerki frumlyfja hjá einum lyfjaheildsala (single-channel distribution) á meðan lyfjaverslanir á flestum öðrum Norðurlöndum geta keypt sömu vörumerki af fleiri en einum heildsala (multi-channel distribution). Þá er aðeins einn sterkur aðili sem framleiðir og selur samheitalyf hér á landi og nokkrir smærri.

Ímynd apóteka á Íslandi
Samkvæmt könnun Gallup frá því í nóvember 2007 eru 66,5% landsmanna mjög eða frekar jákvæð í garð apóteka en rúm 14% eru neikvæð. Tæplega 93% telja þjónustu apóteka vera mikilvæga. Þeir sem eru jákvæðir gagnvart apótekum á Íslandi eru líklegri til að telja þjónustu apóteka vera mikilvæga. Ríflega 42% telja apótek tilheyra „heilbrigðisþjónustu“. Tæplega 41% telur apótek tilheyra almennri verslun og þjónustu, en 17% telja apótek tilheyra báðum þessum geirum. Tengsl eru á milli viðhorfa til apóteka og þess hvaða geira fólk telur apótek tilheyra. Þeir sem telja apótek tilheyra heilbrigðisþjónustu eru jákvæðari gagnvart apótekum en aðrir.

tafla1.jpg

 

 

 

 

   

 

tafla3.jpg 

 

 

tafla2.jpg