Menntakerfið og fjórða iðnbyltingin

 

Óhætt er að slá því föstu að fjórða iðnbyltingin muni hafa gríðarlegar samfélagslegar breytingar í för með sér. Hún mun verða knúin áfram af meiri og stórkostlegri tækninýjungum en áður hafa sést, nýjungum á borð við gervigreind, vélmenni, dróna og sýndarveruleika. Allar þessar breytingar eru af þeirri stærðargráðu að óhjákvæmilegt er að þær munu hafa veruleg áhrif á allt atvinnulíf eins og við þekkjum það í dag og þar með á allt daglegt líf fólks.

Þessar breytingar, sem eru aðeins handan við hornið, kalla á meiri og áður óþekktar áskoranir fyrir okkur öll. Það á ekki hvað síst við um menntakerfið. Stóra spurningin er því hvort menntakerfið okkar verður í stakk búið til að takast á við þessar breytingar. Hvernig búum við fyrirtæki í verslun og þjónustu undir þessar breytingar allar? Verður menntakerfið nógu fljótt að aðlaga sig að nýjum þörfum þessara mikilvægu atvinnugreina? Sennilega er ástæða til að hafa vissar áhyggjur, sagan segir manni nefnilega að „kerfið“ er mun seinna að bregðast við öllum breytingum en atvinnulífið, stundum miklu seinna.

Hvernig munu verslanir framtíðarinnar líta út? Verða þær kannski meira og minna „sjálfvirkar“ þar sem viðskiptavinir „skanna“ sig inn og út úr verslunum? Munu milliliðalaus viðskipti frá framleiðendum til neytenda verða næsta skref í þesssri þróun? Allt eru þetta áleitnar spurningar sem margir eru að velta fyrir sér nú um stundir.

Fjórða iðnbyltingin og allar þær breytingar sem hún mun kalla á, er stærsta áskorunin sem stjórnvöld standa frammi fyrir nú um stundir. Það skiptir lykilmáli við aðlögun að þeim breytingum verði aðlögun menntakerfisins sett í fyrsta sæti. Það er ein megin forsendan fyrir því að atvinnulíf á Íslandi haldi stöðu sinni inn í framtíðina og þar með forsendan fyrir því að unga fólkið okkar sem kemur út á vinnumarkaðinn á næstu árum, fái þau tækifæri sem það á skilið.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ