Atvinnulífið er farið að leggja aukna áherslu á menntun mannauðs og það er jákvætt. Þróunin hefur verið hröð síðustu misseri og útfærslur eru ólíkar og fjölbreyttar. Fræðsla og þjálfun starfsfólks er komin í góðan farveg hjá mörgum fyrirtækjum. Stóru fyrirtækin geta gert meira í krafti stærðar sinnar á meðan lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa að finna nýjar leiðir og vinna saman. Þar spilar tæknin stórt hlutverk sem veitir okkur gríðarleg tækifæri, tækifæri sem við verðum að grípa! Fyrirtæki þurfa ekki lengur að flytja fólk úr öllum áttum á sama stað, á sama tíma og fara yfir mikið efni í alltof löngun tíma. Tæknin gefur tækifæri til að ,,streama“ efni og fyrir upptökur. Og starfsmenn geta farið yfir efnið þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar, á þeim tíma sem þeim hentar. Með aðstoð tækninnar getum við á miklu skilvirkari hátt verið tilbúin með þekkinguna þegar starfsmaðurinn þarf hana – en ekki þegar mannauðsstjórinn er búinn að bóka sal og fyrirlesara! Stafræn þjálfun gefur svo fjölbreytta möguleika, möguleika sem verður að nýta!

Menntun eykur virði fyrirtækja
Menntun skiptir fyrirtækin máli. Rannsóknir sýna að einstaklingar sem fá tækifæri til að auka þekkingu sína og vaxa í starfi eru ánægðari í starfi, hafa góð áhrif á liðsheild og starfa lengur innan viðkomandi fyrirtækis. Aukin menntun og fræðsla eykur sveigjanleika fyrirtækja, starfsfólk getur tekið að sér fjölbreyttari störf og er frekar tilbúið í breytingar. Með þessu verður mannauður fyrirtækja öflugri og fyrirtækin þá um leið samkeppnishæfari. Skýr menntastefna hefur líka jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. Þetta allt skiptir máli enda er ör starfsmannavelta fyrirtækjum dýr. Kröfur um hæfni eru alltaf að aukast og vel þjálfað og hæft starfsfólk gerir færri mistök, er skilvirkara og nýtir tíma sinn betur. Hæft fólk skapar meira virði fyrir fyrirtækin.

Það er því mikilvægt að í boði séu fjölbreytt tækifæri hvort sem það er innan fyrirtækjanna sjálfra, hjá símenntunarmiðstöðvunum, í framhalds- fag- og háskólum, einkaaðilum eða öðrum fræðsluaðilum. Fullorðinsfræðsla er fjármögnuð af samfélaginu vegna þess að við teljum hana mikilvæga. Endurmenntun má ekki bara vera skírteini upp á vegg sem nýtist ekkert. Það þarf að skila sér í auknum tækifærum – bæði fyrir einstaklingana og fyrir fyrirtækin.

Vinnumarkaðurinn breytist hratt, talið er að allt að helmingur núverandi starfa muni breytast töluvert eða hverfa! Fjórða iðnbyltingin er hafin og við verðum að hlaupa með. Á meðan vinnumarkaðurinn breytist hratt hefur menntakerfið sem heild tilhneigingu til að breytast afskaplega hægt.  Kerfi eru í eðli sínu þung og svifasein og við verðum að gæta þess að stjórnsýslan og lagaumhverfi torveldi ekki þeirri framþróun sem er byrjuð og þarf að eiga sér stað.

Höfundur: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntasviðs SVÞ

Greinin til útprentunar.