Samkvæmt fréttatilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar var kaupgleði landsmanna mikil í mars og velta í stærstu flokkum Smásöluvísitölunnar með mesta móti miðað við árstíma. Sem dæmi var dagvöruverslun 10,8% meiri í mars en í sama mánuði í fyrra, byggingavöruverslun 28% meiri og einnig var áfengis- og húsgagnaverslun lífleg.
Velta dagvöruverslana var 10,8% hærri í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi. Ein helsta ástæða fjörugrar verslunar með dagvöru er sú að í ár voru páskar í mars en í apríl árið 2015. Verðlag dagvöru hefur einnig hækkað um 1,7% frá mars í fyrra og er aukning frá fyrra ári á föstu verðlagi því nokkuð minni eða 8,9%. Árstíðaleiðrétt velta dagvöruverslana jókst um 5,6% á föstu verðlagi en með árstíðaleiðréttingu er leitast við að taka út áhrif þátta eins og páska og ólíkrar samsetningar vikudaga á milli mánaða. Telst sú aukning veltu þó enn nokkuð mikil fyrir jafn stöðugan vöruflokk og dagvöru.
Velta áfengisverslunar fyrir virðisaukaskatt var 29,3% meiri og voru 14,6% fleiri lítrar áfengis seldir í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Helsta skýring meiri áfengissölu nú en í fyrra má, líkt og í dagvöruverslun, rekja til tímasetningar páska. Sem fyrr stafar meiri veltuaukning en fjölgun lítra af þeim kerfisbreytingum sem tóku gildi um áramótin en veltutölur sem birtar eru hér eru án VSK en innihalda áfengisgjöld. Árstíðaleiðrétt velta áfengisverslunar á föstu verðlagi jókst um 14,2% og verðlag áfengis (með VSK) hækkaði um 0,8% frá mars í fyrra.
Líkt og undanfarna mánuði er mikill vöxtur í byggingavöruverslun en hún jókst um 28,1% frá síðasta ári á breytilegu verðlagi. Verðlag byggingavöru hefur lækkað um 2,3% frá fyrra ári og er ársbreyting veltu á föstu verðlagi því 31,1%. Verslun með byggingavörur er töluvert háð ástandi efnahagslífsins á hverjum tíma og mikil velta í flokknum vísbending um góðan gang hagkerfisins um þessar mundir.
Húsgagnaverslun var einnig kröftug í mars og jókst velta hennar um 20,7% frá fyrra ári á breytilegu verðlagi en 18,3% á föstu verðlagi. Líkt og í byggingavöruverslun hefur stöðugur vöxtur verið í veltu húsgagnaverslunar síðustu misseri. Þannig var húsgagnaverslun síðustu tólf mánuði 19,1% meiri á föstu verðlagi en á tólf mánaða tímabilnu þar á undan. Verðlag húsgagna í mars var 2,1% hærra en í sama mánuði í fyrra.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 10,8% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í mars um 5,6% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í mars 0,2% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 29,3% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og um 28,3% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í mars um 14,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í mars síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 0,1% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 4,2% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,9% lægra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 4,3% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 11,3% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 8,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í mars um 6,2% frá mars í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 20,7% meiri í mars en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 18,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 28,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 6,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,1% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í mars um 28,1% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 31,1% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,3% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst í mars um 2,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 25,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 4,4% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 3,1% á milli ára. Verðlag raftækja fer almennt lækkandi og lækkaði verð hvers flokks á bilinu 2-4% frá fyrra ári.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.