Sá gífurlegi vöxtur sem verið hefur í komu ferðamanna til landsins undanfarin ár, heldur áfram á sama hraða. Ekkert bendir til að hægja muni á þeirri þróun, þvert á móti er margt sem bendir til þess að aukningin verði enn meiri en bjartsýnustu spár hafa gert ráð fyrir.

Samfara þessum mikla vexti, eykst mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir verlsunar- og þjónustufyrirtækin í landinu. Ekki er neinum blöðum um það að fletta að erlendir ferðamenn skila stórauknum tekjum til þessara fyrirtækja. Augljósustu merkin um þá gífurlegu breytingu sem átt hefur sér stað, eru þau stakkaskipti sem verslun í miðborg Reykjavíkur hefur tekið á undanförnum örfáum árum. Það er hins vegar ekki eingöngu í hefðbundnum ferðamannaverslunum sem þessara breytinga sér merki. Eins og fram kemur í síðustu samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar var kortavelta erlendra kreditkorta í verlsun 40% meiri í nýliðnum marsmánuði en í sama mánuði 2015. Alls versluðu ferðamenn fyrir 1,7 milljarða króna í þeim mánuði. Mestur var vöxturinn í dagvöruverslun, 85% og næst mestur í fataverslun, 51%.

Ljóst er að þessi hraða breyting felur í sér bæði tækifæri og jafnframt vissar ógnanir fyrir fyrirtæki sem sinna ferðamönnum með einum eða öðrum hætti. Fyrir verslunina skiptir mestu máli að fjölbreytnin fái áfram notið sín og að verslunin þróist ekki út í einsleitni, eins og ákveðin merki eru um, einkum í miðborg Reykjavíkur. Tryggja verður að það verði rúm fyrir sem flestar tegundir verslana þar, enda verður miðborg Reykjavíkur varla áhugaverður áfangastaður fyrir ferðamenn ef þar verður ekki fjölbreytni í verslun og þjónustu. Hér reynir mjög á að góð samvinna takist milli borgaryfirvalda og hagsmunaaðila við að tryggja að fjölbreytnin fái áfram notið sín.

Það verður verkefni SVÞ og annarra hagsmunaaðila að vinna að þeim málum á komandi mánuðum og misserum.