Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt mælingar fyrir október sem sýna að velta í fata- og skóverslun dróst saman í október síðastliðnum í frá sama mánuði í fyrra þó svo að verð á fötum hafi verið 5,9% lægra en fyrir ári.  Ef borin er saman velta í fataverslun síðustu þrjá mánuði við sömu þrjá mánuði í fyrra sést að nánast engin breyting var á veltunni á milli ára. Vert er að minnast þess að um síðustu áramót voru felldir niður tollar af fötum sem hvati til aukinnar sölu á fötum hér innanlands. Þannig var ætlunin að sporna gegn þeirri þróun að Íslendingar sem ferðist til annarra landa kaupi í miklu magni föt í útlöndum og fataverslunin flyttist heim í staðinn.

Á þessu ári hefur gengi íslensku krónunnar styrkst verulega og þar með er hagstæðara fyrir landsmenn að versla erlendis núna en í fyrra. Enda var greiðslukortavelta Íslendinga erlendis í október síðastliðnum 19% meiri en í október í fyrra, sem gefur vísbendingu um að aukning hafi verið innkaupum landsmanna erlendis. Líklega eru fatakaup þar innifalin.

Dagvara og heimili
Áframhaldandi aukning var í sölu annarra vöruflokka í október. Þannig jókst sala í dagvöruverslun um 4,3% frá október í fyrra. Sala dagvöru síðastliðna þrjá mánuði var 7,3% meiri en á sama tímabili í fyrra.

Heimilin endurnýja húsgögnin fyrir jólin. Í október jókst sala húsgagna um 19,2% frá sama mánuði og í fyrra. Þar af jókst velta sérverslana með rúm um 23,5% frá því í fyrra. Þegar borin er saman velta húsgagna síðustu þriggja mánaða við sömu mánuði í fyrra jókst veltan um 26%. Sór heimilistæki, líkt og kæliskápar og þvottavélar, njóta einnig aukinna vinsælda í aðdraganda jóla. Sala á slíkum tækjum jókst um 13,5% frá október í fyrra.

Gólfefni
Nú er í fyrsta sinn birt veltuvísitala gólfefna. Vísitalan byggir á veltutölum frá flestum sérverslunum í landinu með gólfefni, auk byggingavöruverslana og annarra sem verslana sem selja gólfefni. Velta gólfefna jókst um 33,8% í október í samanburði við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsbreytingum reiknast aukningin á milli ára vera 32,5%.
Stefnt er að því að bæta við enn fleiri flokkum byggingavöru á næstunni.

Erlend kortavelta
Íslensk verslun nýtur góðs af auknum kaupmætti og vaxandi einkaneyslu. Jafnframt er ljóst að aukinn straumur erlendra ferðamanna hefur nokkur áhrif á verslun. Í október síðastliðnum var heildargreiðslukortavelta erlendra ferðamanna 17,5 milljarðar króna sem er 67,1% hærri upphæð en í október í fyrra

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á breytilegu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í október um 6,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,4% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í október 0,9% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 11,4% á breytilegu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 10,9% á föstu verðlagi. Verð á áfengi var 0,5% hærra í október síðastliðnum og 0% lægra en í mánuðinum á undan. Þess ber að geta að 1. janúar 2016 var áfengi fært í neðra þrep VSK en áfengisgjald hækkað. Í gögnum sem hér er stuðst við eru sýndar breytingar á veltu án VSK og þarf því að túlka tölur með tilliti til þessarar kerfisbreytingar

Fataverslun dróst saman um 7,1% í október miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 1,3% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,9% lægra í október síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 8,6% í október á breytilegu verðlagi og minnkaði um 4,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -5,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í október um 3,9% frá október í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 19,2% meiri í október en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 17% á föstu verðlagi.
Velta sérverslana með rúm jókst um 23,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi.
Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 16,5% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 1,9% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í október um 12,2% á breytilegu verðlagi og jókst um 11,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,3% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í október um 2,8% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 34,3%.
Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 4,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 13,5% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV