Í sérblaði um netverslun sem fylgdi Fréttablaðinu þann 20. apríl sl. var vitnað í grein Ingvars F. Ingvarssonar, aðalhagfræðings sem birst hafði í Viðskiptablaðinu 24. janúar. Í sérblaði Fréttablaðsins sagði:

Í upphafi árs skrifaði Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, pistil þar sem kemur fram að þrátt fyrir öran vöxt netverslunar fer enn stærsti hluti smásöluverslunar fram í hefðbundnum verslunum. Mikill uppgangur netverslunar og breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar er að umbylta umhverfi verslunarinnar og felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu, segir í pistli Ingvars. Hann bendir á skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar og tekur fram að kaup Íslendinga um netið voru um 2,9% af heildarveltu íslenskrar verslunar á meðan algengt er að netverslun í nágrannalöndum okkar nemi um 10% af heildarveltu.

Ingvar Freyr bendir á að á Norðurlöndum er umfang netverslunar einna hæst í Svíþjóð. Ingvar segir það mikilvægt og nauðsynlegt að íslensk fyrirtæki nýti sér stafræna tækni áður en erlendir keppinautar stíga inn á markaðinn með betri tilboð. Aukin hnattvæðing þar sem samkeppnin um neytandann er hörð skapar jafnframt ný tækifæri. Breytingar í rekstrarumhverfi í verslun og þjónustu kallar á breytta hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika, skrifar Ingvar meðal annars en pistil hans má finna á heimasíðu SVÞ.