Fréttatilkynning send á fjölmiðla 20.1.2016
Lækkun og helst afnám tolla á svína- og alifuglakjöt er eitt af baráttumálum Samtaka verslunar og þjónustu, enda bera neytendur umtalsverðan kostnað af verndartollunum eins og glögglega kemur fram í útreikningum efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Þar sést að íslenskir neytendur greiða alls um fjóra milljarða króna á ári vegna tollverndar á innflutt svína- og alifuglakjöti.

Lækkun tollverndarinnar eða afnám hennar yrði veruleg kjarabót fyrir heimilin í landinu enda er alifuglakjöt vinsælasta kjöttegundin hérlendis með tæplega þriðjungs markaðshlutdeild. Sala svínakjöts er í þriðja sæti rétt á eftir lambakjöti en töluverð aukning hefur verið í sölu svínakjöts hérlendis að undanförnu og nam aukningin tæpum 12% á síðasta ári.

Samkvæmt útreikningum efnahagssviðs SA mun ávinningur heimilanna í landinu nema 21.249 krónum á ári að jafnaði ef tollar af svína- og alifuglakjöti verða lækkaðir um helming. Væru tollarnir felldir niður að fullu myndi hvert heimili spara 32.938 krónur að meðaltali á ári.

Við útreikningana var miðað við sölu svína- og kjúklingakjöts á síðasta ári. Ávinningur heimilanna yrði að líkindum meiri, því lækkun eða afnám tollanna mun væntanlega stuðla að aukinni neyslu þessara kjöttegunda.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á verðbreytingum vegna afnáms vörugjalda og breytinga á tollum hafa sýnt að breytingarnar hafa skilað sér sem varanleg verðlækkun til hagsbóta fyrir neytendur.

Viðhengi með útreikningum.

Fréttatilkynning til útprentunar.