Fréttatilkynning send á fjölmiðla 19.5.2016
Um 64% af innfluttum fatnaði og skóm báru 15% tolla fram að síðustu áramót þegar tollurinn var feldur niður. Þessi aðgerð leiddi af sér töluverða kostnaðarlækkun fyrir innflytjendur og niðurfelling tollana ætti því, að öðru óbreyttu, að leiða til ríflega 8% verðlækkunar á þessum vöruflokkum.

Þegar skoðað er hvort tollaniðurfellingin hafi skilað verðlækkun til neytenda þarf að skoða fleiri þætti en opinberar álaglögur. Innkaupsverð varanna, gengi gjaldmiðla, laun og annar innlendur kostnaður eru meðal þess sem hefur áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og þar af leiðandi á þróun verðs á innlendum markaði.

Við mat á því hvort tollalækkanirnar hafi skilað sér með fullnægjandi hætti til neytenda þarf að skoða þróun annarra kostnaðarliða frá því að tollaniðurfellingin tók gildi. Því hefur efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins reiknað vísitölu sem vegur saman þessa kostnaðarliði og ber hana saman við verðþróunina eins og hún hefur verið skv. verðvísitölu Hagstofunnar.

Eins og sést á myndinni hér að ofan hafa verðlækkanir á fötum og skóm í innlendum fataverslunum verið svipaðar og við mátti búast samkvæmt reiknuðu vísitölunni. Frá desember í fyrra fram í apríl s.l. lækkaði verð að meðaltali um 3,9% en reiknaða vísitalan gerir ráð fyrir 3,7% verðlækkun.

Helsta ástæða þess að verðlag hefur ekki lækkað eins mikið og tollabreytingarnar einar og sér gæfu tilefni til,  er mikil hækkun innlendra kostnaðarliða. Hæst bera miklar launahækkanir en á tímabilinu hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 4,8% og annar innlendur kostnaður um 0,7%. Þetta dregur úr áhrifum tollaniðurfellingarinnar og hagstæðrar gengisþróunar. En eftir stendur að niðurfelling tolla hefur skilað íslenskum neytendum um 4% lægra verði á fötum og skóm.

Verðbreytingar koma ekki fram strax og ný lög taka gildi, það þarf að hafa í huga í umræðu um skattkerfisbreytingar. Í fataverslun á meðalkaupmaðurinn um 120 daga vörubirgðir og því getur það því tekið 4 – 5 mánuði að sjá áhrif slíkra breytinga koma endanlega fram í verði vöru. Engu að síður sýna kannanir að verulegar lækkanir eru þegar komnar fram í einstaka vöruflokkum, s.s. kvenskóm, sem hafa lækkað um 17%.

SVÞ er ekki í minnsta vafa um að niðurfelling tolla af fötum og skóm muni skila sér til neytenda á sama hátt og skattkerfisbreytingar fyrri ára hafa gert það. Nýjasta dæmið í því sambandi er afnám vörugjalda um áramótin 2014-2015, en allar mælingar sýna að afnám þeirra gjalda skilaði sér í fullu til neytenda.

Fréttatilkynning 19.5.2016- Niðurfelling tolla og verðþróun á fötum og skóm