Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. september:
Eins og öllum er kunnugt eykst netverslun hröðum skrefum hvar sem er í heiminum, en þessari þróun er afar vel lýst í nýútkominni skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar sem ber heitið „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“.
Þó að netverslun hafi þróast hægar hér á landi en víða í nágrannalöndum okkar, eykst hún nú með meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Jafnframt eykst hin alþjóðlega samkeppni á þessum markaði.
Póstsendingar frá þróunarríkjum
Því fer fjarri að hin alþjóðlega samkeppni í netverslun fari fram við jöfn samkeppnisskilyrði.
Á grundvelli áratugagamals alþjóðasamnings (Universal Postal Union), sem á rætur sínar að rekja allt aftur á 19. öld og Ísland er aðili að, ber póstþjónustufyrirtækjum í þróuðum ríkjum að greiða 70-80% af kostnaði við póstsendingar sem þangað berast frá ríkjum sem flokkast sem þróunarríki. Þróunarríki greiða aðeins 20-30% af þessum kostnaði.
Fyrir mörg þróunarríki hefur þessi samningur reynst vel við að koma framleiðsluvörum þessara ríkja inn á alþjóðlega markaði.
Kína er skilgreint sem þróunarríki
Svo undarlega sem það kann að hljóma flokkast Kína sem þróunarríki eftir skilningi þessa gamla samnings. Þetta þýðir á mannamáli að stór hluti kostnaðar af þeim póstsendingum sem koma hingað til lands frá Kína er í raun niðurgreiddur af íslenskum neytendum. Íslandspósti, sem er opinbert hlutafélag og í 100% eigu íslenska ríkisins, ber skylda til að dreifa öllu því mikla magni póstsendinga sem berast hingað til lands með þessum hætti, og með þeim skilmálum sem fyrr var lýst.
Því fer fjarri að þessi staða sé bundin við Ísland. Í nágrannalöndum okkar, beggja vegna Atlantsála, sætir þetta kerfi sífellt meiri gagnrýni. Til Danmerkur, svo dæmi sé tekið, berast á hverjum degi um 40.000 póstsendingar frá Kína. Verslun á Norðurlöndum finnur mjög fyrir þeirri ósanngjörnu samkeppni sem þarna birtist og opinber póstþjónusta í þessum löndum er að sligast undan því álagi og þeim kostnaði sem þessu fylgir.
Samkeppnisstaðan
Innlend verslun (bæði hefðbundin og netverslun) stendur augljóslega höllum fæti gagnvart þessari ójöfnu samkeppni. Ekki nóg með að sendingarkostnaðurinn sé niðurgreiddur, heldur bendir allt til að stór hluti þess varnings sem kemur til landsins með þessum hætti komi án þess að greiddur sé af honum virðisaukaskattur. Að sama skapi er í einstökum tilvikum um að ræða sendingar á vörum sem brjóta gegn hugverka- og hönnunarvernd, þ.e. falsaðar vörur eða vörur sem ekki hafa verið framleiddar í samræmi við viðurkennda öryggisstaðla.
Þetta er staða sem ekki er hægt að una við lengur enda ljóst að samkeppni þrífst ekki við slíkar aðstæður. Aðstæður þar sem framleiðsla í Kína er niðurgreidd af íslenska ríkinu sem og öðrum ríkjum í hinum vestræna heimi. Netverslanir hér á landi og í nágrannalöndum okkar munu ekki geta keppt við stór ríki sem njóta slíkrar forgjafar og að sama skapi mun kostnaður póstrekenda vegna þessa falla á innlenda neytendur. Hér verða stjórnvöld einfaldlega að spyrna við fótum.