Ný skýrsla um stöðu og horfur í íslenskri verslun er í undirbúningi og kemur út á næstu vikum. Í henni kemur fram að verslun er að mörgu leyti á tímamótum vegna tilkomu stafrænna tækni og aukningar netverslunar. Auk SVÞ, standa að skýrslunni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og VR. Skýrslan er unnin undir stjórn Rannsóknaseturs verslunarinnar og í samstarfi við Hagfræðistofnun HÍ.

Teknar hafa verið saman upplýsingar um þróun netverslunar og breytingar sem eiga sér stað á hefðbundnum verslunum með tilkomu stafrænnar tækni og breytts verslunarmynsturs. Sérstaklega er horft til áhrifa þessara breytinga á íslenska verslun, störf í greininni svo og tækifæri til nýsköpunar. Þá er einnig höfð til hliðsjónar sambærileg þróun í  nágrannalöndum okkar og hvaða áhrif verslun almennings yfir landamæri hefur á íslenska verslun.

Birtar verða upplýsingar um umfang innlendrar netverslunar og þess sem landsmenn kaupa frá erlendum netverslunum. Þá eru birtar niðurstöður úr nýrri skoðanakönnum um netverslun Íslendinga og viðhorf þeirra sem reka íslenskar netverslanir.

Í skýrslunni eru skoðuð áhrif erlendrar samkeppni í verslun, m.a. netverslun, fatakaup Íslendinga erlendis o.fl. Þá verður fjallað um samruna sem nú á sér stað milli hefðbundinnar verslunar og netverslunar með tilkomu stafrænnar tækni og snjalltækjum. Settar verða upp sviðsmyndir um framtíð íslenskrar verslunar. Að lokum verða settar fram tillögur að stefnumótun hagsmunaaðila (bæði launþega og vinnuveitenda) í samstarfi við stjórnvöld. Markmiðið er að nýta sem best þau sóknarfæri sem felast í þeim stórstígu breytingum sem eiga sér stað með hagsmuni bæði verslunar og neytenda í huga.