Um áramótin munu Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst bjóða upp á nýtt nám. Markmiðið er að bjóða upp á valkost í námi fyrir þá sem vilja mennta sig í verslun og þjónustu og vilja jafnvel halda áfram í háskólanám í framhaldi en námið verður metið áfram í námi til BS gráðu í viðskiptafræði í báðum skólum.

Námið, sem verður 60 ECTS einingar, verður nám með vinnu og mun taka tvö ár í dreifinámi. Það byggir að hluta til á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræði við Bifröst og HR en að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunar og þjónustu í huga með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni. Námið byggir að auki á hæfnigreiningu fyrir starf verslunarstjóra og viðhorfskannana meðal starfandi verslunarstjóra. Styrkur námsins liggur í nánu samstarfi við atvinnulífið og samstarfi háskólanna tveggja um þróun námsins og kennslu.

Almenn inngönguskilyrði verða stúdentspróf eða sambærilegt nám en einnig verður litið til starfsreynslu og hæfni við inntöku nemenda. Stefnt er að því að fyrirtæki velji nemendur úr starfsmannahópum sínum inn í námið en aðrir munu einnig geta sótt um námið.

Það er mikið fagnaðarefni að slíkt nám verði valkostur. Verslunarstjórar sinna ábyrgðarmiklum stjórnendastörfum og algengt er að þeir stýri tugum starfsmanna og beri ábyrgð á hundruð milljóna veltu. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt VR gerðu könnun meðal verslunarstjóra í vor um menntun og þeirra menntunarþörf. Þar kom í ljós að þörf er á námi sem þessu, en 56% telja sig hafa mikla eða mjög mikla þörf fyrir menntun, þjálfun eða fræðslu í tengslum við núverandi starf. Jafnframt kom fram að meirihluti verslunarstjóra, eða hátt í 70%, telja sig hafa mjög eða frekar lítil tækifæri til endurmenntunar.

Slíkur valkostur á fagháskólastigi er því fagnaðarefni.