Allt frá 2009 hefur tilhögun á gjalddögum virðisaukaskatts verið með þeim hætti að hverjum gjalddaga hefur í raun verið skipt í tvennt. Þannig hefur þeim gjalddaga sem nú er 15. mars verið skipt með þeim hætti að helmingur gjaldanna hefur verið greiddur þann dag og seinni helmingurinn 5. apríl.  SVÞ hafði á sínum tíma forgöngu að því að þetta fyrirkomulag var tekið upp, enda aðstæður með þeim hætti í ársbyrjun 2009 að nauðsynlegt var fyrir hið opinbera að koma til móts við atvinnulífið með þessum hætti. Lagaheimildin sem þetta fyrirkomulag hefur byggst á hefur verið framlengd um ár í senn allar götur síðan.

Þegar þetta mál kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á haustþingi 2016, var ekki vilji til að festa þetta fyrirkomulag í sessi til framtíðar, þó svo að viss fyrirheit hafi áður verið gefin um það. Skrifstofa SVÞ hefur undanfarnar vikur gert það sem í hennar valdi stendur til að fá þessu breytt, en án árangurs.  Ráðuneytið hefur bent á í því sambandi að aðstæður í efnahagslífinu séu allt aðrar en árið 2009.

Hins vegar liggur fyrir að innan fjármálaráðuneytisins er hafin vinna við að fækka gjalddögum opinberra gjalda, með það að markmiði að gera greiðslur til ríkisins gagnsærri og auðveldari og er stefnt að því að leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi á haustþingi 2017.  SVÞ styðja þau áform heilshugar og munu leggja sig fram um að nýtt og betra fyrirkomulag á innheimtu opinberra gjalda geti komið til framkvæmda í ársbyrjun 2018.