Öryggismál – frágangur á farmi

Undanfarna mánuði hefur ítrekað verið gerð athugasemd í blöðum við slælegan frágang á farmi flutningabíla.. Ritstjóri Morgunblaðsins hefur meðal annars kallað eftir viðbrögðum flutningagreinarinnar við þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið og farið fram á úrbætur strax. Flutningasvið SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu tók þessar ábendingar mjög alvarlega og í upphafi ársins var settur saman hópur öryggisstjóra aðildarfyrirtækja flutningasviðs SVÞ til að gera átak í þessum málum. Síðan hópurinn kom fyrst saman hefur margt áunnist en verkinu er þó enn ólokið. Eðli málsins samkvæmt tekur verkefni sem þetta nokkurn tíma en okkur er öllum ljóst að það er brýnt og áhugi manna á því innan greinarinnar er mikill. Í þessari vinnu hefur komið í ljós að öryggisstjórar stóru fyrirtækjanna gegna lykilhlutverki og gera okkur í raun mögulegt að ganga í þetta verk þannig að það skili áþreifanlegum árangri.

Í upphafi starfsins var byrjað á að leita fyrirmynda erlendis sem hægt væri að nýta hér heima. Það kom fljótt í ljós að efni sem aðgengilegt er erlendis um frágang á farmi í landflutningum var mjög viðamikið og tæknilegs eðlis. Það er hins vegar álit okkar í hópnum að þykkir doðrantar með verkfræðilegum upplýsingum nýtist bílstjórum takmarkað. Því hefur verið ákveðið að taka saman notendavæna handbók með myndum og helstu ábendingum um öll öryggisatriði sem huga þarf að áður en lagt er af stað. Þegar slík handbók er tilbúin er mikilvægasti hluti verkefnisins eftir – að innleiða bætt verklag á meðal flutningabílstjóra.

Rætt hefur verið við tryggingafélögin um að koma að þessu starfi með okkur og hefur þeirri málaleitan verið vel tekið. Að sjálfsögðu er það sameiginlegt hagsmunamál okkar allra, flutningafyrirtækjanna sem hins almenna vegfaranda, að öryggismál séu sett efst í forgangsröðina. Markmið okkar er að ítarleg yfirferð flutningabílstjóra um helstu öryggisatriði verði jafn hversdagslegt og sjálfsagt verk og að setja bílinn í gang. Það mun taka nokkurn tíma að setja handbókina saman og ekki síður að innleiða nýtt verklag hjá flutningabílstjórum. Reynt verður að flýta þessu verki eins og kostur er. Þangað til handbókin lítur dagsins ljós og hægt verður að kynna átakið munum við halda áfram að brýna fyrir flutningabílstjórum um að vanda sig í þessum málaflokki. Vandaður frágangur á farmi er mikilvægt öryggisatriði allra í umferðinni. Við gerum okkur fulla grein fyrir því og ætlum okkur að sýna vegfarendum í verki að okkur er alvara.

(Grein þessi birtist í Mbl 7.07. 2007)