Þorláksmessutraffík hefur verið í verslunum undanfarið og gríðarleg aukning í sölu í matvöruverslunum. Jafnframt skilja hvorki landlæknir né framkvæmdastjóri SVÞ í því hvers vegna einhverjir hafi ákveðið að hamstra klósettpappír.

Framkvæmdastjóri SVÞ, Andrés Magnússon, tók þátt í blaðamannafundi ásamt yfirlögregluþjóni, landlækni og sóttvarnalækni sl. fimmtudag þar sem hann lagði áherslu á að engin ástæða væri til að hafa áhyggjur af matar- eða lyfjabirgðum. Ekki væri nauðsynlegt að hamstra mat til heimilisins eða annars, og að ástandið væri að skapa gífurlegt óþarfa álag á verslanir í landinu. Jafnframt væru nægar lyfjabirgðir til og ekki ástæða til að hamstra lyf. Hvatti Andrés almenning í landinu til að haga heimilisinnkaupum sínum með eðlilegum hætti, enda annað ástæðulaust.

„Það er alveg á hreinu og það eru skilaboðin sem við viljum senda héðan mjög skýrt. Það er til nóg af mat í landinu, bæði innfluttum og innlendum. Vöruflutningar til landsins eru algerlega ótruflaðir. Það eru engin merki um það að það sé vöruskortur í uppsiglingu í landinu. Hvorki á mat, lyfjum né yfir höfuð öðrum vörum. Þannig er það,“ sagði Andrés.

Andrés greindi einnig frá því að verslunarrekendur hefðu þegar hafið vinnu við að passa upp á að ekki væri fleiri en 100 inn í hverri verslun á sama tíma og að gætt yrði að því að 2 metrar yrðu á milli fólks í verslunum. Verslunarfólk mun telja þá viðskiptavini sem fara inn í búðirnar og sömuleiðis þá sem fara út úr þeim, enda sé það nauðsynlegt til að farið verði að reglum um samkomubann. Jafnframt verður farið vel yfir fjölda starfsfólks í hverri verslun á hverjum tíma.

Litið verður á það þannig að hver verslun í Kringlunni og Smáralind sé sér verslun – reglurnar miðast því við hverja verslun fyrir sig.

Andrés lýsti jafnframt almennum áhyggjum af ástandinu fyrir atvinnulífið. Áhrifin verði gífurleg.

Hér fyrir neðan má sjá hlekki í fréttir af málunum í nokkrum vefmiðlum síðustu daga:

https://www.visir.is/g/202019383d/skilja-ekkert-i-thvi-af-hverju-folk-er-ad-hamstra-klosett-pappir

https://www.ruv.is/frett/meira-ad-gera-en-um-jolin

https://kjarninn.is/frettir/2020-03-13-algjor-otharfi-ad-hamstra-mat/

https://www.visir.is/g/202019361d/talid-inn-i-budirnar-og-ut-ur-theim

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/14/fordaemalaust_bann

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/13/thad_eru_til_naegar_birgdir_af_mat_i_landinu/

Samtök verslunar og þjónustu segja nóg til af birgðum í landinu: „Engin ástæða til þess að hamstra“