Að undanförnu hefur sala á netinu færst í aukana og hafa verslanir í síauknum mæli tileinkað sér netverslanir í sinni starfsemi sem valmöguleika fyrir neytendur. Að mörgu þarf að hyggja þegar kemur að netverslun enda geta réttindi og skyldur verið mismunandi frá því sem á við um staðbundna verslun.

Má í þessu samhengi benda á að réttindi neytenda kunna að vera ítarlegri varðandi viðskipti í gegnum netverslanir, s.s. varðar upplýsingar um vöru og skilarétt, og einnig þarf að gera grein ítarlega grein fyrir kostnaði. Til viðbótar má nefna að fyrr á þessu ári voru samþykkt ný lög um neytendasamninga sem hafa það að markmiði að samræma reglur aðildarríkja EES-svæðisins um samninga utan fastrar starfsstöðvar seljanda, fjarsölusamninga, sölu- og þjónustusamninga og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytendur áður en slíkir samningar verða skuldbindandi af hálfu neytenda.

Þær helstu breytingar sem hin nýju lög hafa í för með sér eru ýmsar formlegar kröfur til samninga utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga, svo sem um staðfestingu á samningi og hvernig upplýsingagjöf skuli háttað. Þá er einnig gert ráð fyrir rýmri rétti neytenda til þess að falla frá samningi miðað við tilteknar aðstæður.

Því er ljóst að sala á vörum og þjónustu í fjarsölu og utan fastrar starfsstöðvar, s.s. sala á netinu, felur í sér þær skyldur að tryggja neytendum nægar upplýsingar og ýmis réttindi við slík kaup. Einnig eru auknar kröfur lagðar á seljendur á netinu að upplýsa neytendur um rétt sinn.

SVÞ munu halda sérstakan félagsfund fimmtudaginn 10. nóvember nk. þar sem fulltrúar frá Neytendastofu munu kynna fyrir aðildarfyrirtækjum samtakanna þau réttindi og skyldur sem snúa að netverslun sem og kynna þær breytingar sem framangreind lög um neytendasamninga hafa í för með sér.