Blaðagrein birt undir Skoðun í Viðskiptablaðinu 30.7.2017
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ
Í Evrópu eykst netverslun jafnt og þétt og er búist við að sala á netinu muni aukast um 14% á árinu 2017, á meðan sala í hefðbundinni verslun eigi eftir að dragast saman um 1%. Smásala á netinu er því nú þegar að taka umtalsverða markaðshlutdeild frá hefðbundinni smásölu. Myndin að neðan sýnir þróun hlutdeildar af alþjóðlegri smásölu á síðastliðnum árum og spá sérfræðinga um þróunina á næstu árum.

Þróun innlendrar netverslunar er í takt við aukna netverslun sem á sér stað annars staðar í heiminum. Til að mynda kemur fram í könnun Gallup að Íslendingar séu meðal þjóða þar sem hvað flestir versla á netinu eða 79%. Ef hlutfall netviðskipta á Norðurlöndunum á síðasta ári er skoðað kemur í ljós að Svíar hafa lægsta hlutfall viðskipta við erlenda netverslun . Sænsk netverslun hefur náð að skapa sér hagstæða stöðu, aðallega á grundvelli fjölbreytts vöruúrvals, með því að bjóða upp á notendavænar vefsíður, s.s. vefsíður fyrir farsíma og einfaldar lausnir hvað varða kaupferlið.

Netverslunin skapar tækifæri
Þegar sala á vöru og þjónustu fer fram á netinu, dregur úr þörf seljanda að byggja upp eigin vörumerki til að skapa traust. Ef vörurnar eru samkvæmt loforðum og greiðsla og afhending samkvæmt samningnum, fær seljandinn góða endurgjöf sem er mikils virði vegna þess að það gefur kaupenda ákveðna ábyrgð gagnvart því að vera blekktur.
Það er þó full ástæða til að gæta varúðar og fylgjast með þróuninni. „First mover advantage“, þ.e., sá sem er fyrstur felur í sér mikinn ávinning. Viðskiptavettvangurinn sem nær til sín fyrstu fylgjendunum skapar forskot gagnvart samkeppnisaðilanum. Það er hægt að rekja til svokallaðs stafræns traust sem að eykst eftir því sem vettvangurinn fær fleiri fylgjendur. Þegar valinn er vettvangur er það oft sá sem er með mesta traustið sem verður fyrir valinu og er jafnframt sá sem er með flesta fylgjendur. Í þessu samhengi getur ákveðin einokunarstaða skapast á markaði. Þá er mikilvægt að undirstrika að engin samstaða er um hvernig regluverk eigi að vera á þeim mörkuðum sem að þessi nýi stafræni vettvangurinn hefur áhrif.

Áhrif betur upplýstra neytenda og netverslunar
Ljóst er að tækniþróunin hefur í för með sér að neytendur eru betur upplýstir bæði hvað varðar verð- og gæði og hafa meira val vegna netverslunar sem leiðir síðan til aukinnar samkeppni. Þessi þróun hvetur verslanir til að auka framleiðni og minnka kostnað sem síðar leiðir af sér minni verðbólgu í stað þess að hækka verð. Á þennan hátt er hægt að nýta stafrænu tæknina til að auka virði þeirra vara sem seldar eru í verslunum. Á sama tíma eru verðin sífellt gagnsærri, því viðskiptavinurinn getur betur borið saman við verð annars staðar svo samkeppnin eykst sífellt.

Aukin sjálfvirkni, skilvirkari flutningar og birgðastjórnun
Virðiskeðja í verslun heldur áfram að sjálfvirknivæðast. Tækniþróunin getur aukið framleiðni í fyrirtækjum með ýmsu móti; m.a. með nýrri framleiðslutækni sem eykur framleiðni vinnuaflsins. Það getur átt sér stað samfara aukinni sjálfvirkni í framleiðslu sem kemur í stað vinnuafls. Í báðum tilfellum lækkar kostnaður fyrirtækja sem síðar getur leitt til minni verðbólgu.

Þá mun gervigreind nýtast við sjálfvirka gagnaöflun og mat sem að eykur hagkvæmni og dregur úr viðskiptakostnaði. Fyrirtæki geta þannig veitt einstaklingsþjónustu með hjálp aukinnar gervigreindar, með því að áætla hvað hver viðskiptavinur kýs sér helst.

Lærum af reynslu Svía
Íslensk fyrirtæki verða að tileinka sér hina nýju tækni ef þau ætla að halda viðskiptavinum sínum því aukin netverslun leiðir af sér að viðskiptavinir geta verslað við fyrirtæki hvar sem er í heiminum í krafti aukinnar alþjóðavæðingar. Til að mynda með því að bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem boðið er upp á sérsniðna þjónustu í rauntíma sem nýtist við að bæta upplifunina af viðskiptunum. Mjög örar breytingar eru að eiga sér stað og því er nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að nýta sér stafrænu tæknina áður en keppinautar stíga inn á markaðinn með betri tilboð.

Umfjöllun í Viðskiptablaðinu

Greinin á pdf sniði