Í umræðunni um fyrirliggjandi lagafrumvarp til breytinga á sölu áfengis hafa þau sjónarmið verið áberandi að verslunin muni ekki sýna ábyrgð í verki þegar kemur að þeim ströngu skilyrðum sem gilda um sölu áfengis. Þeir sem lengst hafa gengið halda því eindregið fram að sala áfengis í almennum verslunum muni leiða til aukins aðgengis og tilslökunar á sölu og afhendingu á þeirri neysluvöru sem áfengið er.

Í þessari umræðu er mikilvægt að greina á milli þeirrar gagnrýni sem byggist á lýðheilsusjónarmiðum og hins vegar þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram af einstaka hagsmunaaðilum sem halda því fram að aukin samkeppni ógni því þægilega umhverfi sem þeir sumir hverjir búa við í viðskiptum þeirra við einokunarfyrirtæki ríkisins.

Það er mjög mikilvægt að halda því til haga að versluninni hefur á undanförnum áratugum verið falin sala á ýmsum vörum sem hafa tiltekna hættueiginleika og varða almannaheill. Hér má nefna neysluvörur á borð við tóbak og lyf og aðrar vörur eins og skotfæri, skotelda, sprengiefni og vandmeðfarnar efnavörur.
Reynslan hefur sýnt það að versluninni er fyllilega treystandi til að annast sölu á þessum viðkvæmu vörum og að virða þær ströngu reglur sem um þessar vörur gilda. Á öðrum sviðum hefur einkaaðilum einnig verið treyst til að annast þjónustu á sviðum sem varða öryggi og almannaheill, eins og skoðun ökutækja. Af þessum dæmum ætti að vera nokkuð ljóst að versluninni er fyllilega treystandi til að annast sölu á áfengi til almennings.