Svíar eru fyrirferðamestir í netverslun í Skandinavíu
Með því að kanna umfang viðskipta í Skandinavíu við erlendar netverslanir má fá almenna hugmynd um styrkleika innlendrar verslunar í löndunum. Ef hlutfall þeirra neytenda sem stunduðu netviðskipti í Skandinavíu á fyrri helmingi ársins 2017 er skoðað kemur í ljós að í Svíþjóð höfðu hlutfallslega flestir verslað á netinu eða um 65% neytenda. Þrátt fyrir að Svíar kjósi í meira mæli að beina viðskiptum sínum í gegnum netið þá kaupa Svíar í auknum mæli vörur af innlendum aðilum á meðan Finnar hafa hæst hlutfall viðskipta við erlenda netverslun. Ástæða þessa er m.a. sú að fjöldi af sænskum netverslunum starfa í hagstæðu og samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi á víðtækum grunni. Sænsk netverslun nær því að skapa sér hagstæða stöðu á þessu sviði, aðallega á grundvelli fjölbreytts vöruúrvals og með því að bjóða upp á notendavænar vefsíður. Mikilvægt er að læra af reynslu Svía og útfæra svipaðar lausnir hér á landi m.t.t. hagsmuna neytenda. Að endingu má benda á að Svíar og Finnar hafa dregið úr kaupum bóka og kvikmynda erlendis frá en því má þakka hagstæðu verði og góðum afhendingarmöguleikum innanlands. Annar þáttur í þessu er að alþjóðlegir aðilar ná ekki að markaðssetja vöruna á tungumálum landanna.