Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 27.12.2016
Höfundur:  Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SVÞ

SVÞ skora því eindregið á borgaryfirvöld að sýna vilja í verki við það að takast á við samgöngumál í borginni með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Reykjavík er allskonar borg fyrir allskonar fólk sem býr í allskonar hverfum. Tilvísun þessi er sótt í ítarefni með aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem samþykkt var í borgarstjórn hinn 26. nóvember 2013. Þessi stutta tilvísun gefur svo sannarlega fögur fyrirheit um skipulagsmál í sátt allra með heildarhagsmuni íbúa borgarinnar að leiðarljósi, hvort sem það eru heimili eða fyrirtæki, enda er sjálfsögð krafa að útsvarsgreiðendur borgarinnar séu jafnsettir gagnvart sveitarfélaginu.
Hins vegar hafa misvísandi skoðanir í fjölmiðlum undanfarið um samgöngumál Reykjavíkurborgar vakið áleitnar spurningar um forgangsröðun borgarinnar í þeim efnum. Í nýlegri frétt í Morgunblaðinu áréttar vegamálastjóri réttilega að ástand einstakra vegakafla í borginni er mjög slæmt. Gagnrýnir vegamálastjóri framkvæmdaleysi borgarinnar sem hamli um leið alla þátttöku Vegagerðarinnar að úrbótum á vegakerfinu. Það er sannarlega áhyggjuefni að þegar sérfræðistofnun hins opinbera á sviði vegaframkvæmda fellir slíkan áfellisdóm um ástand vega skuli Reykjavíkurborg ekki vinna úr slíkum ábendingum með uppbyggilegum hætti. Í stað þess að nýta sér framkomna gagnrýni vegamálastjóra er honum svarað af fulltrúa Reykjavíkurborgar í frétt næsta dags m.a. undir þeim formerkjum að ferðamenn ráði ekki áherslum á sviði samgöngumála.

Hvort sem það er við ferðamenn að sakast eður ei að umferð hefur aukist er staðreynd að vegakerfi borgarinnar er víðast hvar fyrir löngu sprungið. Langar biðraðir við gatnamót og umferðarteppur eru að verða meginregla frekar en undantekning og því er um að ræða ástand sem ekki er unnt að hunsa til lengri tíma. Bættar almenningssamgöngur og átak af því tagi er jákvæð nálgun á slíkt vandamál en getur aldrei verið hin eina lausn á því ástandi. Í því samhengi benda SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu á að fjöldi aðildarfyrirtækja samtakanna grundvallar starfsemi sína á að afhenda vörur ýmsum þjónustuaðilum, s.s. veitingastöðum, stórum sem smáum verslunum, fyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum og stofnunum svo dæmi séu tekin. Það er hagsmunamál fyrir þessa aðila og viðskiptavini þeirra að vörur séu afhentar á öruggan og ábyrgan hátt. Hins vegar er það staðreynd að takmörkun borgaryfirvalda á afhendingu, t.a.m. takmarkaðir losunarstaðir og takmarkað aðgengi sökum umferðarálags á vegakerfi, er til þess fallin að hamla verulega starfsemi þessara aðila. Breytingar á almenningssamgöngum munu ekki nýtast þessum aðilum enda verða vörur seint ferjaðar á milli staða með leiðarkerfi almenningsvagna.

Í áðurnefndu aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er m.a. lögð áhersla á uppbyggingu miðborgarinnar sem ferðamanna-, veitinga- og verslunarmiðborgar, sem sagt allskonar miðborgar fyrir allskonar fólk. Slík allskonar borg kallar á allskonar þjónustu og aðföng og um leið allskonar lausnir varðandi afhendingu og ferjun á vörum.

Að mati SVÞ er óheppilegt að ekki er tekið tillit til faglegra ábendinga vegamálastjóra sem með ábyrgum hætti vekur athygli á þeim vandkvæðum sem blasa við vegakerfinu í Reykjavíkurborg. Til að standa undir nafni þarf allskonar borgin Reykjavík að mæta þörfum allra en ekki sumra. Bættar almenningssamgöngur munu ekki leysa þau vandamál sem nýjar akreinar geta tekist á við og umbætur í vegakerfi eru því fyrir löngu aðkallandi. SVÞ benda á að það er sérstakt hagsmunamál aðildarfyrirtækja samtakanna að grettistaki verði lyft af hálfu borgarinnar, og Vegagerðarinnar þar sem á við, að leysa úr þeim umferðarrembihnút sem vegakerfið í Reykjavíkurborg er fyrir löngu komið í. SVÞ skora því eindregið á borgaryfirvöld að sýna vilja í verki við það að takast á við samgöngumál í borginni með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu.