SAMÞYKKTIR HAGSMUNAHÓPS BÓKHALDSSTOFA

1. gr. Heiti

Hópurinn heitir Hagsmunahópur bókhaldsstofa, skammstafað HB.

2. gr. Heimilisfang

Heimili HB og varnarþing er hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík.

3. gr. Tilgangur

Tilgangur HB er að gæta hagsmuna bókhaldsstofa, skapa faglegan og gagnsæjan vettvang til skoðanaskipta og vera í fyrirsvari gagnvart opinberum aðilum. HB mun ekki stunda atvinnurekstur með neinum hætti eða aðra fjárhagslega starfsemi.

Tilgangi sínum hyggst HB ná með því að starfa að þeim málefnum og markmiðum sem félagar ákveða á stjórnar- , aðal- og félagsfundum og með þeim aðferðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni. Þannig mun HB m.a. halda reglubundna félagsfundi auk þess að halda opna fundi.

4. gr. Aðild

Aðilar að HB geta verið lögaðilar sem annast rekstur bókhaldsstofu eða einstaklingar sem stunda slíka starfsemi í sjálfstæðum atvinnurekstri. Umsóknir um aðild skulu berast stjórn HB eða skrifstofu SVÞ skriflega, t.d. bréflega eða með tölvupósti, og vera afgreiddar á næsta stjórnarfundi. Inntökubeiðni telst samþykkt ef meirihluti stjórnar er henni samþykkur.

HB er hagsmunahópur innan SVÞ. Aðild að HB felur jafnframt í sér beina aðild að SVÞ og Samtökum atvinnulífsins með þeim réttindum og skyldum sem kveðið er á um í samþykktum þeirra.

5. gr.  Úrsögn og brottvikning

Úrsögn úr HB skal berast stjórn eða skrifstofu SVÞ skriflega og vera afgreidd á næsta stjórnarfundi.

Stjórn er heimilt að víkja félögum úr HB ef þeir gerast brotlegir við samþykktir hópsins. Heimilt er að bera þá ákvörðun undir félagsfund, sem skal þá efna til eins fljótt og unnt er.

6. gr. Almennir félagsfundir

Stjórn HB getur boðað til almennra félagsfunda. Boða skal til slíkra funda með viku fyrirvara með bréfi eða tölvupósti og annast skrifstofa SVÞ boðun. Um meðferð mála á slíkum fundum gilda sömu reglur og um aðalfund eftir því sem við á.

7. gr. Aðalfundur

Aðalfundur HB skal haldinn fyrir 1. nóvember ár hvert. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum HB. Aðalfundarboð skal senda aðildarfélögum bréflega eða með rafrænu fundarboði með minnst 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétt hafa stjórnendur skuldlausra aðildarfélaga við SVÞ og starfsmenn bæði SVÞ og aðildarfélaga. Hvert aðildarfélag skal tilnefna einn fulltrúa sem fer með atkvæði á aðalfundi og einn til vara.

Á dagskrá aðalfundar skulu vera:

  • Skýrsla stjórnar
  • Umræður um skýrslu stjórnar
  • Breytingar á samþykktum
  • Kosning formanns
  • Önnur mál

Framboð til stjórnar skal berast formanni HB eða skrifstofu SVÞ í síðasta lagi 7 dögum fyrir upphaf aðalfundar.

8. gr. Stjórn

Stjórn HB skal skipuð fimm einstaklingum, þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum. Formaður skal kosinn á hverjum aðalfundi. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn.

Umsjón með daglegri starfsemi HB er í höndum skrifstofu SVÞ. Halda skal fundargerðir um það sem fjallað er um á stjórnarfundum og félagsfundum HB.

Stjórnarfundi skal boða með rafrænu fundarboði, tölvupósti eða bréfpósti. Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir og kveður varamenn til stjórnarfunda eftir aðstæðum. Formaður getur falið  skrifstofu SVÞ boðun funda. Skylt er að halda stjórnarfund ef tveir stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef minnst tveir stjórnarmenn sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

9.  gr.  Fjármál

HB er sérstakur hagsmunahópur innan SVÞ og því ekki með sjálfstæðan fjárhag.

10. gr. Breytingar á samþykktum

Samþykktum HB verður aðeins breytt á aðalfundum. Tillögum til breytinga á samþykktunum skal skila til stjórnar 7 dögum fyrir aðalfund og skal stjórn í fundarboði geta þess ef breytingatillaga hefur komið fram. Nái breytingatillaga samþykki 50% hluta atkvæðabærra fundarmanna telst hún samþykkt.

11. gr. Slit á hópnum

Afgreiða skal tillögu um að slíta HB eins og tillögu um breytingu á samþykktum, sbr. 10. gr.

Þannig samþykkt á stofnfundi HB 12. júní 2020.