SAMTÖK HEILBRIGÐISFYRIRTÆKJA

Samþykktir

Samþykktir fyrir Samtök heilbrigðisfyrirtækja

1.gr.
Samtökin heita Samtök heilbrigðisfyrirtækja og er nafn þeirra skammstafað SH. Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.Tilgangur samtakanna er:
a)    að gæta hagsmuna sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja á Íslandi
b)    að tryggja góða samvinnu milli sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja og hins opinbera
c)    að bæta rekstrarskilyrði sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja á Íslandi
d)    að styðja framþróun heilbrigðismála á Íslandi.

Til að ná tilgangi sínum hyggjast samtökin:
a)    koma fram fyrir hönd sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja gagnvart stjórnvöldum
b)    efla skilning stjórnvalda á þjóðhagslegu mikilvægi sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja
c)    halda upplýsingaflæði til aðildarfélaga um breytingar á starfsumhverfi aðildarfyrirtækja
d)     fylgjast með að hagsmunir sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja séu virtir við þróun nýrrar löggjafar á heilbrigðissviði.

3.gr.
Fyrirtæki  í meirihluta eigu sjálfstætt starfandi aðila í heilbrigðisþjónustu sem og dótturfélög þeirra hafa ein rétt á því að ganga í samtökin. Allar umsóknir um aðild skulu bornar upp á stjórnarfundi til samþykktar. Fyrirtæki innan Samtaka heilbrigðisfyrirtækja eru sjálfkrafa aðilar að Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum atvinnulífsins.

4. gr.
Stjórn samtakanna skal skipuð fimm einstaklingum,  þ.e. formanni, varaformanni og þremur meðstjórnendum.  Hver aðili að samtökunum má aðeins hafa einn fulltrúa í stjórn. Formaður skal kosinn á hverjum aðalfundi. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, en þó skal einungis kjósa tvo þeirra á hverjum aðalfundi.  Á hverjum aðalfundi skal kjósa tvo menn í varastjórn, fyrsta varamann og annan varamann. Varamenn eru boðaðir á stjórnarfundi og hafa þar umræðu- og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt. Hætti stjórnarmenn störfum hjá aðildarfyrirtæki eða ef aðildarfyrirtæki hættir starfsemi eða í SH, missa þeir rétt til stjórnarsetu og tekur þá varamaður sæti þeirra. Formaður boðar til stjórnarfunda. Á fyrsta fundi stjórnar að aðalfundi loknum skal stjórnin velja varaformann meðal stjórnarmanna.

Umsjón með daglegri starfsemi samtakanna er í höndum skrifstofu Samtaka verslunar og þjónustu. Halda skal fundargerðir um þar sem fjallað er um á stjórnarfundum og félagsfundum samtakanna.

Stjórn SH innheimtir tekjur samtakanna sem eru árlegt gjald aðildarfélaga samtakanna og sem ákveðið er af stjórn samtakanna fyrir hvert almanaksár. Hið árlega gjald skal standa undir almennum rekstrarkostnaði samakanna og taka mið af tilgangi þeirra samkvæmt samþykktum þessum. Halda skal árlegu gjaldi eins lágu og kostur er hverju sinni. Einfaldan meirihluta stjórnar þarf til þess að samþykkja breytingu árgjalds, sem tilkynnt skal aðildarfélögum eigi síðar en 1. desember.

Einnig er stjórn samtakanna heimilt að innheimta gjald fyrir sértæk verkefni sem unnin eru fyrir tiltekið aðildarfélag, eitt eða fleiri, samkvæmt samkomulagi. Skal miðast við að gjald þetta sé eigi hærra en sem nemur beinum vinnukostnaði vegna umsamins verkefnis.

5. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda fyrir lok mars ár hvert. Boða skal til aðalfundar  með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara og skal dagskrá hvers fundar fylgja fundarboði. Heimilt er að boða til funda með rafrænum hætti.

Félagsfundi skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar. Stjórn skal boða til félagsfundar þegar þriðjungur félagsmanna krefst þess.

Á aðalfundi skal formaður samtakanna gefa skýrslu um stöðu og rekstur samtakanna á liðnu starfsári.Starfsár samtakanna er á milli aðalfunda.

Úrsögn verður að tilkynna með skriflegum hætti og miðast við árslok. Úrsögn tekur gildi sex mánuðum eftir að hún berst stjórn samtakanna.

Ákvörðun um slit samtakanna verður tekin á stjórnarfundi með einföldum meirihluta og renna eignir þess til góðgerðarmála samkvæmt ákvörðun meirihluta stjórnar.

Samþykktir  þessar voru samþykktar á stofnfundi samtakanna þann 16. mars 2010 og öðlast þegar gildi. Breytingar voru samþykktar á aðalfundi 22. mars 2011 og 25.3.2015.