Stofnfundur samtakanna

Á stofnfundi samtakanna tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, til máls. Hún fagnaði stofnun samtakanna og taldi brýna nauðsyn á að samtökin gætu miðlað upplýsingum til hagsmunaaðila, fjölmiðla, ríkisvalds og sveitarfélaga. Sagði hún að tryggja þyrfti valfrelsi í skólamálum og að sjálfstæðir skólar væru ekki ógnun við menntakerfi landsins heldur tækifæri til að auka við menntunina í landinu.

Margrét Pála Ólafsdóttir nýkjörinn formaður samtakanna sagði mikilvægt að fulltrúar allra sjálfstæðra leik- og grunnskóla geti deilt reynslu sinni og unnið sameiginlega að þeim hagsmunamálum sem snerta alla skólana óháð stefnu þeirra og starfsháttum að öðru leyti. Hún sagði að í dag ríkti ekki jafnræði meðal nemanda og foreldra barna í sjálfstæðum skólum og börnum og foreldrum barna í opinberum skólum.

Viðskiptaráð Íslands er bakhjarl samtakanna. Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs tók til máls og talaði um mikilvægi menntunar á leik- og grunnskólastigi. Sagði hann að miklu máli skipti að hlúð væri að sjálfstæðum leik- og grunnskólum. Að mati Viðskiptaráðs verða stjórnvöld og sveitarfélög að tryggja rekstrargrundvöll sjálfstæðra skóla og greiða jafnt með öllum nemendum.