Eftirfarandi fréttatilkynning var send á fjölmiðla 9. desember 2019:

Um miðjan nóvember s.l. lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram lagafrumvarp á Alþingi sem felur í sér róttækar breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarvörur. Með frumvarpinu vill ráðherra m.a. færa neytendum ábata í formi lægra smásöluverðs tiltekinna matvara.  

Sterkar líkur eru á að þær breytingar sem ráðherra hefur mótað og endurspeglast í frumvarpinu muni lækka verð á innfluttum landbúnaðarafurðum, neytendum til hagsbóta.   

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur fjallað um frumvarpið að undanförnu. Frumvarpið virðist vandað og m.a. fengu allir helstu hagsmunaðilar að koma sínum sjónarmiðum að á undirbúningsstigum þess. Ekkert benti því til annars en að málið hlyti fremur hefðbundna afgreiðslu. Í síðustu viku, degi fyrir áætlaðan afgreiðsludag atvinnuveganefndar, átti sá fáheyrði atburður sé stað að ellefu félög hagsmunaaðila ályktuðu gegn frumvarpinu. Fyrir utan Bændasamtök Íslands og ýmis aðildarfélög þeirra stóðu að ályktuninni Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og Samtök iðnaðarins. Til grundvallar ályktuninni voru færð afar óljós rök, þ.e. að finna þyrfti málinu heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. 

Það kemur vægast sagt mjög á óvart að samtök á borð við Félag atvinnurekenda, Samtök iðnaðarins og Neytendasamtökin sameinist um að leggja stein í götu lagafrumvarps sem hafði það að raunverulega markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem numið getur fleiri hundruðum milljóna króna á ári. 

Samtök verslunar og þjónustu skora á atvinnuveganefnd Alþingis að afgreiða frumvarpið til 2. umræðu á Alþingi, eftir atvikum án breytinga, og tryggja því þannig eðlilegan þinglegan framgang. Því verður ekki trúað að óreyndu að Alþingi láti mótsagnakennd rök þröngs sérhagsmunahóps, sem hefur hlotið stuðning úr óvæntri átt, stöðva framgang lagafrumvarps sem hefur það raunhæfa markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem lengi hefur verið kallað eftir.