Brú að bættum lífskjörum fyrir allt að 80.000 manns.

Skammtímakjarasamningur hefur verið undirritaður milli SA og VR, LÍV og samflots iðnaðarmanna. Samningurinn gildir frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024.

„Samningar Samtaka atvinnulífsins við SGS annars vegar og VR, LÍV og samflot iðnaðarmanna hins vegar munu byggja undir áframhaldandi lífskjarabata og endurnýja stöðugleika. Það er tilgangurinn og það verkefni sem við höfum verið að fást við, beggja vegna samningaborðsins, síðustu vikur og mánuði,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins við undirritun samningsins.

Í frétt frá Samtökum atvinnulífsins segir m.a. að með undirritun samningsins í dag hefur SA samið við stærstu félögin á almennum vinnumarkaði sem samanstanda af meira en 80 þúsund manns, en líkt og kunnugt er náðust samningar milli SA og SGS í síðustu viku. Efling stendur ein utan sáttar og sem fyrr standa vonir til að ná samningum við þau fyrr en síðar.

Grundvöllur fyrirsjáanleika á óvissutímum

Þá segir einnig að meginviðfangsefni skammtímasamninganna er að verja þann árangur sem náðst hefur á liðnum árum og tryggja grundvöll áframhaldandi lífskjarabata á komandi misserum. Í ljósi krefjandi efnahagslegra aðstæðna, sem einkum hafa einkennst af mikilli verðbólgu og vaxtahækkunum, er mikilvægt að samningar aðila vinnumarkaðarins hafi þau skýru markmið að styðja við kaupmátt og að jafnvægi náist sem fyrst í hagkerfinu. Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta. Þá hafa stjórnvöld gefið fyrirheit um tilteknar aðgerðir í tengslum við skammtímasamninga, ekki síst til að styrkja stöðu þeirra sem minnst hafa.

Markmið fyrrnefndra samninga er að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bil yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins. Þar var áhersla lögð á að tryggja efnahagslega velsæld og aukna verðmætasköpun, bæta lífskjör og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.

SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA FRÉTT Á SA.IS