Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Skortur á stefnu og heildarsýn í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum

Í fjárlögum fráfarandi ríkistjórnar fyrir árið 2018 sem kynnt var í september síðastliðnum kom fram að stjórnvöld ætluðu sér að tvöfalda kolefnisgjald til að draga úr losun. Tvöföldun kolefnisgjalds hækkar gjöld á bensín um 5,5 kr./l eða tæplega 7 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti. Tvöföldun kolefnisgjalds ásamt jöfnun bensín- og olíugjalds hækkar gjöld á dísilolíu um 16,25 kr./l eða rúmlega 20 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti (ekki er tekið tillit til verðlagsuppfærslu vörugjalda).

Grænir skattar eru hluti af stefnu stjórnvalda um umhverfisvernd og loftslagsmál. Samtök verslunar og þjónustu fagna aðild Íslands að Parísarsamkomulaginu og viðleitni stjórnvalda til að setja upp aðgerðaáætlun til að fylgja markmiðum samkomulagsins eftir. En í ljósi mikillar útgjaldaaukningar einstakra geira atvinnulífsins er þó margt gagnrýnivert í nálgun stjórnvalda.

Sé eldsneytisskattur sem hlutfall af heildarverði eldsneytis á tímabilinu 2011 – 2013 skoðaður sést að eldsneytisskattar á Norðurlöndunum eru meðal þeirra hæstu í heiminum (sjá graf í viðhengi). Einnig er yfirleitt minni skattlagning á dísilolíu, bæði hvað varðar losun koltvísýrings og í raungildi, en  á bensíni.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Ísland og loftslagsmál kemur fram að á árinu 2014 nam útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi 861 þúsund tonnum CO2 ígilda eða 19% af heildarútstreymi frá Íslandi. Þá er útstreymi í samgöngum næstmest á eftir  útstreymi frá iðnaði og efnanotkun. Þar segir einnig að reglugerðir sem miða að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, ásamt þróun í sparneytni nýrra bifreiða á heimsvísu, hafa haft þau áhrif að útstreymi frá vegasamgöngum hefur ekki aukist í samræmi við aukinn vöxt hagkerfisins frá 2011.

Norska samgönguhagfræðistofnunin (Transportøkonomisk institutt, TØI)  fjallar um í skýrslu sinni A CO2-fund for the transport industry: The case of Norway að það sé hagkvæmast að styðja við fjárfestingar í ökutækjum sem nota lífdísil, en að framboð á sjálfbæru eldsneyti geti falið í sér áskorun. Samtök atvinnulífsins í Noregi leggja til að stofnaður verði CO2 sjóður og benda á að þörf sé fyrir bæði umbun og refsingu (carrot and sticks) . CO2 sjóðurinn er ætlaður fyrir einkageirann til að styðja hvað mest við grænni tæknibreytingar. Sjá umfjöllun hér. Þessi sjóður ætti að leggja áherslu á að veita styrki til ökutækja sem nota dýrari tækni, svo sem lífgas, rafmagn og vetni. Slíkur sjóður getur því stuðlað að aukinni eftirspurn eftir þessari tækni þar til að tæknin verður samkeppnishæf.

Enn sem komið er hafa hérlend stjórnvöld ekki sett sér markvissa tæknistefnu í loftslagsmálum gagnvart flutningageiranum. Stjórnvöld hafa fyrst og fremst lagt áherslu á skattlagningu án þess að draga úr áhættu aðila á allra fyrstu stigum tækniþróunar og smá saman hleypa tækninni í samkeppnisumhverfið. Sé frekari skattlagningu beitt án þess að styðja við greinina með öðrum hætti er hætt við að frekari eldsneytisskattur skili sér í hærra vöruverði til neytenda.

Samantektina má nálgast hér.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu

Exit mobile version