Hvað sagt er – og ekki síður ósagt látið

Fyrir nokkru sendu Bændasamtök Íslands frá sér skýrslu sem ber yfirskriftina: „Matvöruverð á Íslandi – úttekt á þáttum sem hafa áhrif á matvöruverð“. Það er góðra gjalda vert að Bændasamtökin sjái ástæðu til að benda á atriði sem betur megi fara á þessu sviði sem er mikilvægt fyrir allan almenning í landinu. Hin efnislega framsetning í skýrslunni orkar hins vegar mjög tvímælis, en hún inniheldur fjölmargar fullyrðingar sem virðast hafa þann tilgang einan að varpa rýrð á dagvöruverslunina sem atvinnugreinar. Í því sambandi er vert að minna á að um 40% þeirra vara sem dagvöruverslunin hefur til sölu eru framleiðsluvörur bænda.

Í skýrslu sinni vitna Bændasamtökin mikið til skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá mars 2015 sem ber yfirskriftina: „Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði – staða samkeppninnar 2015“. Það vekur hins vegar athygli að hvergi er minnst einu orði á þær mörgu tillögur sem Samkeppniseftirlitið setti þar fram um hvernig auka mætti samkeppni í landbúnaði. Þá er heldur hvergi minnst á þátt aðfangakeðjunnar í verðmyndun á dagvörumarkaði í skýrslu Bændasamtakanna og hvernig samkeppni er háttað þar. Staðreyndin er nefnilega sú að birgjar dagvöruverslunarinnar í mjólk, ostum, grænmeti, brauði, alifuglakjöti, lambakjöti og svínakjöti eru einungis á bilinu einn til þrír. Það að Bændasamtökin sneiði algerlega fram hjá því að fjalla um þessa mikilvægu þætti í skýrslu sinni dregur mjög úr trúverðugleika hennar.

 1. Arðsemi í matvöruverslun – ónákvæmur samanburður

Í skýrslu Bændasamtakanna er því haldið fram að arðsemi í matvöruverslun sé almennt góð og hafi farið batnandi árin 2011 – 2013. Þessu til stuðnings er vitnað í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá mars 2015. Í henni metur Samkeppniseftirlitið meðalarðsemi eigin fjár skráðra dagvörusmásala (e. grocery retailers) á Íslandi 35% – 40% í samanburði við meðalarðsemi eigin fjár 13% í Evrópu og 11% í Bandaríkjunum. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að benda á að samanburður Samkeppniseftirlitsins tekur aðeins til ársins 2013. Þegar hins vegar árin 2014 og 2015 eru metin á sama mælikvarða verður niðurstaðan talsvert önnur því þá sést að árið 2014 stóðu bandarísk félög í sama flokki best að vígi í þessum samanburði, á meðan erfið ár blöstu við í dagvöruverslun í Evrópu og kemur það vel fram í þessum sama samanburði.

Meðalarðsemi skráðra dagvöruverslana skv. iðnaðarflokkun Damodaran (Heimild: Capital IQ). *Upplýsingar vegna ársins 2015 liggja ekki fyrir.

 1. Áhrif gengisbreytinga á verðlag

Bændasamtökin halda því fram í skýrslu sinni að verð á innfluttri matvöru hafi hækkað meira en verð á innlendri búvöru, jafnframt því sem verðið hafi verið gífurlega sveiflukennt.

Samtök verslunar og þjónustu hafa gagnrýnt þessa framsetningu þar sem hún gefur ekki rétta mynd af því hvernig verðlag innfluttra vara hefur þróast og verður sýnt fram á það á næstu þremur myndum hversu ónákvæm framsetning bæði Bændasamtaka Íslands og Samkeppniseftirlitsins er.

Þessar myndir sýna verðþróun innfluttra vara á þremur mismunandi tímabilum. Í öllum tilfellum er reiknuð vísitala innfluttra vara borin saman við verðvísitölu Hagstofu Íslands. Reiknaða vísitalan er mynduð af gengisáhrifum, erlendri verðbólgu, innlendum launakostnaði og öðrum innlendum kostnaði. Ef reiknuð vísitala er hærri en verðvísitala Hagstofunnar er álagning í verslun að minnka.

Reiknaða vísitalan er leiðrétt fyrir afnámi vörugjalda 1. jan 2015.

Frtk. 9.2.2016 graf 3
 • Facebook
 • Twitter
 • Gmail
 • LinkedIn
Frtk. 9.2.2016 graf 4
 • Facebook
 • Twitter
 • Gmail
 • LinkedIn

Ef horft er á þróunina frá 2008 kemur í ljós að reiknaða vísitalan er í 96 af 96 tilvikum hagstæðari en verðvísitala Hafstofunnar. Ef horft er á þróunina frá 2011 kemur í ljós að reiknaða vísitalan er í 40 af 60 tilfellum hagstæðari en verðvísitala Hagstofunnar og ef horft er á árin 2014 og 2015 kemur í ljós að reiknaða vísitalan er í 12 af 24 tilvikum hagstæðari en vístitala Hagstofunnar.

 1. Þáttur birgja

Það vekur sérstaka athygli að skýrsla Bændasamtakanna minnist ekki einu orði á þátt birgja í verðmyndun á smásölumarkaði. Það er öllum ljóst að til þess að unnt sé að fjalla um verðmyndun á þessum markaði með réttum hætti þarf að taka fyrir þátt hvers aðila í ferlinu frá framleiðanda (bónda) til neytenda.

Eins og Samkeppniseftirlitið tekur sérstaklega fram í skýrslu sinni var ekki leitað skýringa á hækkuðu verði á einstökum innlendum vöruflokkum á s.l. 3-4 árum. Þar fór t.d. ekki fram greining á verðþróun frá bændum til afurðastöðva ofl. sem gætu skýrt umrædda verðhækkun.

Þar sem ekki liggur fyrir greining af hálfu eftirlitsaðila á því hver hlutur birgja er í verðmyndun á dagvörumarkaði verður það sundurlausa mat í skýrslu Bændasamtakanna um þætti sem hafa áhif á matvöruverð að teljast harla ótrúverðugt. Á meðan svo er verður ekki við annað miðað í þessu sambandi en þá mynd sem Samkeppniseftirlitið dregur upp í skýrslu sinni þess efnis að framlegð stærstu verslanasamstæða á dagvörumarkaði hafi staðið í stað á því tímabili sem skýrsla eftirlitsins tekur til, þ.e. áranna 2010 til 2014 (tafla bls. 47 í skýrslu SKE). Það er því ekkert sem bendir til annars en að álagning í dagvöruversluninni hafi haldist óbreytt mörg undanfarin ár, eins og fulltrúar verslunarinnar hafa raunar ítrekað haldið fram.

 1. Ábendingar Samkeppniseftirlitsins

Eins og áður segir setur Samkeppniseftirlitið fram fjölmargar ábendingar um aðgerðir til að bæta samkeppni í landbúnaði í skýrslu sinni frá 2015. Í mörgum tilfellum er þar um að ræða tillögur sem eftirlitið hefur ítrekað sett fram og beint til ráðherra og stofnana. Í flestum tilfellum hafa stjórnvöld látið hjá líða að fara eftir ábendingum SKE. Margar ábendinganna beinast að opinberum samkeppnishömlum sem eru til staðar í landbúnaðarkerfinu og eru til þess fallnar að skerða hag bæði neytenda og bænda. Það sker í augu að Bændasamtökin hafi ekki séð ástæðu til að fjalla einu orði um þessar ábendingar Samkeppniseftirlitsins. Fullyrða má að ef stjórnvöld færu að tillögum Samkeppniseftirlitsins í landbúnaðarmálum kæmu slíkar aðgerðir neytendum í landinu mjög til góða með beinum hætti.

 1. Búvörusamningur

Um nokkurra mánaða skeið hafa staðið yfir viðræður milli Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda um gerð nýs búvörusamnings. Áætlað er að samningurinn verði gerður til tíu ára og muni kosta skattgreiðendur nær 14 milljarða króna á ári eða nálega 140 milljarða á þessu tíu ára tímabili. Lengst af fóru samningaviðræðurnar hljótt og virtist sem litið væri svo á að þær væru einkamál bændaforystunnar og stjórnvalda. Vegna utanaðkomandi þrýstings hefur nú orðið breyting á og búið að opinbera helstu efnisatriði fyrirhugaðs samnings. Eins og ljóst má vera er hér um gífurlega dýran samning að ræða og er þá ótalinn sá óbeini stuðningur sem landbúnaðurinn býr við í formi tollverndar sem almennt er metin á um 9 milljarða króna á ári. Stjórnvöld virðast engin áform hafa um að minnka þá tollvernd. Að óbreyttu mun því bæði beinn og óbeinn stuðningur aukast við landbúnaðinn á næstu árum. Má því gera ráð fyrir að almenningi verði sendur reikningur upp á 220 til 240 milljarða króna á næstu tíu árum í því skyni að halda uppi nær óbreyttu landbúnaðarkerfi. Það skyldi þó ekki vera tilviljun að skýrsla Bændasamtakanna hafi verið sett fram á akkúrat þessum tímapunkti. Það skyldi þó ekki vera að tilgangurinn hafi verið sá að draga athyglina frá væntanlegum búvörusamningi og þeim feita reikningi sem ætlunin er að senda almenningi að undirskrift lokinni?

Fréttatilkynning til útprentunar.