Í dag, 17. desember, birtist eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ og Margréti Sanders stjórnarformann, í Morgunblaðinu:

Traust og trúnaður er hin almenna regla í samskiptum vinnuveitenda og starfsfólks. Það er sem betur fer alger undantekning þegar samskipti þessara aðila eru á hinn veginn. Enda er það ein meginforsendan fyrir farsælum og árangursríkum atvinnurekstri að samskipti vinnuveitandans og starfsfólks hans séu byggð á trúnaði og trausti, þ.e. gagnkvæmri virðingu. Fullyrða má að atvinnurekendur upp til hópa, hvort sem þeir eru starfandi í verslun, þjónustu eða öðrum atvinnugreinum, leggi sig fram um að hafa þessi samskipti á sem bestan veg.

Þær sjónvarpsauglýsingar frá VR sem birtast þessa dagana eru að mati SVÞ fjarri öllum raunveruleika um það hvernig vinnuveitendur umgangast starfsfólk sitt. Það handrit að mannlegum harmleik sem sett er á svið á kómískan en um leið gildishlaðinn hátt er verulega vandmeðfarið og ekki til þess fallið að gera gaman að. Við þekkjum a.m.k. ekki þann vinnuveitanda sem vill misbjóða starfsfólki sínu á þann veg sem þar er lýst. Þó að mörgum þyki þessar auglýsingar með þeim hætti að þær nái að kitla hláturtaugar hjá fólki er undirtónn þeirra og þau skilaboð sem þær senda mjög alvarleg árás á atvinnurekendur almennt. Ef kaupmaðurinn á horninu, sem er aðalpersónan í auglýsingunum, er gott dæmi um „skúrkinn“ á íslenskum vinnumarkaði þá er sú lýsing okkur mjög framandi. Í það minnsta væri áhugavert að þeir aðilar sem standa að slíkri aðför standi keikir með staðreyndir að vopni í stað almennra alhæfinga um atvinnurekendur upp til hópa.

Hafa skal það sem sannara reynist en SVÞ hafa á undanförnum árum lagt sig fram við að eiga gott samstarf við VR á sem flestum sviðum. Þetta samstarf á ekki hvað síst að stuðla að bættri starfs- og endurmenntun félagsmanna VR, enda hafa báðir aðilar litið svo á að með því verði hinn almenni starfsmaður búinn undir þær miklu breytingar sem fyrirsjáanlegar eru í verslun og þjónustu á allra næstu árum. Breytt starfsumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja kallar óhjákvæmilega á breyttar kröfur um hæfni starfsfólks.

Við lítum svo á að kröftum SVÞ og VR verði mun betur varið í að vinna í sameiningu við að takast á við þær miklu áskoranir sem eru framundan í stað þess að munnhöggvast um veruleika sem er flestum mjög fjarlægur. SVÞ mun a.m.k. leggja sig fram um að hafa samskiptin á þeim nótum og áfram hvetja sitt fólk til að hlúa vel að starfsfólki sínu og byggja upp gagnkvæmt traust vinnuveitanda og starfsfólks. Það er von SVÞ að VR sjái hag síns fólks að sama skapi betur borgið með því að tryggja slíkan framgang síns fólks í stað þess að mála upp þá hræðilegu mynd af framandi vinnusambandi sem auglýsingar undanfarið hafa teiknað upp.