Grein birt í Vísbendingu 11. maí 2017
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

Þær breytingar sem allar atvinnugreinar, ekki hvað síst verslun og þjónusta standa nú frammi fyrir, eru meiri og róttækari en nokkur dæmi eru um. Breytingar sem eru að verða á viðskiptaháttum nýrrar kynslóðar og þær stórstígu framfarir í allri tækni sem orðið hafa á allra síðustu árum, gjörbreyta viðskiptaumhverfi fyrirtækja. Hér skiptir ekki máli hvað atvinngreinin heitir, áhrifanna mun gæta á öllum sviðum atvinnulífsins.

Hraðar og sögulegar framfarir
„Í dag stöndum við á barmi fjórðu iðnbyltingarinnar“ var nýlega haft eftir Klaus Schwab, stofnanda Alþjóða efnahagsþingsins (World Economic Forum). Þessi bylting lýsir sér í hröðum og sögulegum framförum á ólíkum sviðum, eins og erfðavísindum, gervigreind, örtækni og líftækni. Allar þessar ótrúlegu breytingar eru síðan að leggja grunninn að altækari byltingu en við höfum áður séð sem mun gjörbreyta atvinnulífi og vinnumarkaðnum öllum á aðeins örfáum árum.

Ögrandi verkefni framundan
Það eru því ögrandi verkefni sem við stöndum nú öll frammi fyrir.Vinnumarkaðinn mun óhjákvæmilega að þurfa að aðlaga sig að þessum breytingum. Það má hins vegar gefa sér að ákveðið þjóðfélagslegt umrót verði þegar slík umbreyting á sér stað. Slíkt hefur alltaf gerst við slíkar aðstæður. Spurningin er einungis hversu víðtækt þetta umrót verður. Tvö dæmi úr fortíðinni: Í upphafi 20. aldar störfuðu 40% vinnafls í Bandaríkjunum í landbúnaði, nú starfa 2% vinnuafls þar í landi í greininni. Þegar hraðbankar voru hins vegar kynntir til sögunnar á sjötta áratug liðinnar aldar, áttu flestir von á dagar bankagjaldkera væru taldir. Þeim hefur reyndar fjölgað síðan þá.

Helmingur starfa sjálfvirk árið 2055
Samkvæmt nýrri skýrslu frá McKinsey Global Institue mun næstum helmingur af öllu störfum verða sjálfvirk árið 2055. Hins vegar geta ýmis atriði haft áhrif á þessa þróun, t.a.m. geta stjórnmálamenn og almenningsviðhorf gagnvart nýrri tækni, seinkað innleiðingu hennar um 20 ár. Skýrslan bendir til þess að hreyfingin í átt að sjálfvirkni leiði til þess að framleiðni muni aukast í heimsbúskapnum. Samkvæmt líkani þeirra getur framleiðni á alþjóðavísu aukist um 0,8 til 1,4 prósent á ári. Tækniþróunin getur aukið framleiðni í fyrirtækjum með ýmsu móti; m.a. með nýrri framleiðslutækni sem eykur framleiðni vinnuaflsins. Það getur einnig átt sér stað samfara aukinni sjálfvirkni í framleiðslu sem kemur í stað vinnuaflsins.
Ein af afleiðingunum af þessu er t.a.m. að störf í verslunargeiranum munu breytast, minna verður í boði af störfum þar sem lítillar menntun er krafist, en meiri þörf verður á fólki með bæði góða félagslega- og tæknilega færni, svo það geti leiðbeint viðskiptavinunum í gegnum möguleikana sem tæknin býður upp á.

Aðlaga þarf virðiskeðjuna
Verslunin er sannarlega ein þeirra atvinnugreina sem verða að aðlaga virðiskeðju sína að þessum breytta veruleika. Verslunarfyrirtæki verða að bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem boðið er upp á sérsniðna þjónustu í rauntíma sem nýtist við að bæta upplifunina af viðskiptunum. Mikilvægasta eign hvers fyrirtækis verður því gagnagrunnurinn yfir viðskiptavinina, en með því móti geta fyrirtæki veitt einstaklingsþjónustu með hjálp gervigreindar og þar með áætlað hvað hver viðskiptavinur er helst að leita eftir. Í þessu sambandi mætti nefna að fyrirtæki geta t.d. samtvinnað gervigreindartækni við sýndarveruleikabúnað sem settur yrði upp í veslunum til að geta gefið notandanum tækifæri til að átta sig betur á vörunni og hvernig hún myndi nýtast honum.

Óvissa um áhrif tækniþróunar
Eins og rakið er hér að ofan er töluverð óvissa um áhrif tækniþróunar á vinnumarkaðinn. Því er full ástæða til að gæta varúðar og fylgja þróuninni eftir með tölfræðilegum greiningum svo hægt sé að aðlagast hratt að þeim breyttu aðstæðum og nýju tækifærum sem munu opnast. Hætta er þó á að hinir hefðbundnu mælikvarðar dugi skammt til að meta þessar veigamiklu breytingar. Hið raunverulega verðmat á fjórðu iðnbyltingunni hefur ekki farið fram. Í þessu sambandi má nefna að hefðbundnir mælikvarðar á framleiðni mæla ekki aukinn ábata neytenda af nýrri tækni, þ.e. tækninni við að hámarka nýtingu frítíma viðskiptavina sinna sem mælikvarðarnir hafa hingað til ekki tekið tillit til. Sem dæmi um þennan falda ábata, þá er hagur neytenda af því að nýta sér netbankaþjónustu til að mynda mun meiri en kostnaðurinn sem bankarnir rukka fyrir þjónustuna, en þessi hagur er alla jafna ekki mældur.
Fjórða iðnbyltingin er að mestu leyti markaðsdrifin þróun, en við getum ráðið miklu um framvinduna. Stjórnvöld geta með stefnumótun haft mikil áhrif á hana með því að undirbúa nýjar kynslóðir fyrir breytta tíma í gegnum menntakerfið. Auk þess sem atvinnulífið þarf að vera vakandi og stuðla að endurmenntun vinnuaflsins.

Vísbending 17. tbl. 2017