Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ skrifar í Viðskiptablaðið 14. mars sl.:

Þegar neytendur kaupa lausafjármuni með nokkurra ára nýtingu í huga vanda þeir oftast valið. Val milli muna sem standa til boða ræðst að miklu leyti af upplýsingum um eiginleika og ástand sem fyrir liggja þegar kaupin eru gerð. Upplýsinga er jafnan aflað úr fjölmiðlum, á netinu eða með beinum eða óbeinum samskiptum við seljendur og jafnvel aðra neytendur. Traust og trú á viðskiptaumhverfinu og efnahagslegir hvatar hafa jafnframt áhrif á hvernig kaupandi nýtir fyrirliggjandi upplýsingar.

Atferlishagfræðin, sem á rætur sínar að rekja til hagfræði, sálfræði og atferlisgreiningar, skoðar m.a. hvernig kaupendur nýta upplýsingar. Svo nærtækt dæmi sé tekið töldu hagfræðingarnir Akerlof og Schiller að vantraust á kaupsýslufólki og fyrirtækjum í kjölfar bankahruns gæti haft stigmagnandi neikvæðar afleiðingar. Vantraust elur af sér óvissu, óvissan veldur samdrætti í neyslu sem aftur dregur úr neysluvilja neytenda þar sem þeir vilja spara ef enn skyldi harðna á dalnum. Úr verður nokkurskonar „kapphlaup niður á botn“ þar sem neikvæðni elur af sér meiri neikvæði. Í slíku ástandi er hætt við að viðskipti verði stjrál, kostnaðarsöm og óskilvirk.

Í grein Akerlof frá árinu 1970 tekur hann dæmi af markaðnum með notaða bíla. Hann fylgir amerískri málvenju og kallar lélega notaða bíla sítrónur (e. lemons) en góða notaða bíla ferskjur (e.peaches). Akerlof gengur útfrá því að kaupandi viti ekki hvort notaður bíll sem hann hyggst kaupa sé sítróna eða ferskja. Seljandinn, sem hefur hugsanlega notað bílinn í mörg ár, séð um viðhald hans og svo framvegis, býr yfir meiri upplýsingum og getur lagt raunhæft mat á hvað geti talist eðlilegt söluverð. Í hagfræðinni er þá rætt um að upplýsingar séu ósamhverfar. Við þessu geta kaupendur brugðist með ýmsum hætti t.d. með því að fá óháðan aðila til að framkvæma ástandsskoðun áður en kaup eru ákveðin, telji þeir slíka skoðun svara kostnaði.

Sú staða getur komið upp að seljendur notfæri sér markvisst að kaupendur eru lakar upplýstir en þeir og selji, eða reyni að selja, sítrónur sem ferskjur. Geri kaupendur sér grein fyrir að seljendur séu í svikahug ganga þeir útfrá að allir notaðir bílar séu sítrónur og verðleggja þá í samræmi við það.

Þessar vangaveltur Akerlofs um sítrónumarkaðinn í Ameríku virðist eiga við um markað fyrir notaða bíla á Íslandi nú um mundir. Ljóst virðist að átt hafi verið við kílómetramæla bílaleigubíla sem hafa verið seldir á eftirmarkaði. Segja má að undir slíkum kringumstæðum gangi hið sígilda „sítrónu-vandamál“ aftur. „Sítrónan“ er bílaleigubíll sem almennur neytandi hefur eignast að leigunotum loknum. Neytendur eru margir í þeirri stöðu að líkur eru á að þeir eigi bíl sem þeir hafa greitt of mikið fyrir. Seljandinn hefur fallið í freistni, sniðgengið góða viðskiptahætti og notfært sér trúgirni kaupandans í ljósi upplýsinga sem hann einn bjó yfir. Reyndar virðist seljandinn hafa gengið lengra og nýtt tæknina til þess að vekja ranga hugmynd í huga kaupenda um ástand bíla á eftirmarkaði.

Undir þessum kringumstæðum skapast hætta á keðjuverkun í samræmi við forspár Akerlofs. Neytendur taka að draga úr kaupum á notuðum bílaleigubílum og þar sem upplýst hefur verið um hve auðvelt það er fyrir hvern og einn að „falsa“ kílómetrastöðu smitast aðrir notaðir bílar af óvissunni. Bílasalar virðast ekki hafa verið meðvitaðir um háttsemina og þeim því ómögulegt að tryggja gæði söluferlisins eins og til var ætlast.

Óvissan er tekin að magnast. Neytendur geta dregið úr óvissunni með tvennum hætti, annars vegar með því að láta ávallt vinna ítarlegt ástandsmat á bílum fyrir kaup og hins vegar með því að halda að sér höndum. Báðar leiðirnar hafa samfélagslegan kostnað í för með sér auk þess sem gera má ráð fyrir að það hægi á söluhraða bíla. Til að vinna gegn þessum áhrifum gæti ríkisvaldið gripið til aðgerða í formi samræmds og traustvekjandi eftirlits.

Reyndar hefur hið opinbera þegar yfirumsjón með slíku eftirliti. Frá árinu 2009 hafa fólksbílar fyrst sætt aðalskoðun á fjórða ári eftir skráningu, annað hvert ár í tvö næstu skipti, og árlega eftir það. Leigubílar eru hinsvegar ávallt skoðaðir árlega. Yfir stendur innleiðing á Evrópugerð þar sem gert er ráð fyrir að við aðalskoðun beri skoðunaraðilum að yfirfara kílómetramæla bifreiða. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að þeir sem eiga við kílómetramæla ökutækja sæti refsingu.

Sterkar vísbendingar eru um að bílaleigubílar séu eknir álíka mikið á fyrsta einu til einu og hálfu árinu og fólksbílar í eigu einstaklinga eru eknir á fyrstu þremur til fjórum árum eftir nýskráningu. Mikill akstur kemur jafnan niður á ástandi bíla. Vanræksla á viðhaldi bíla kemur jafnan fram við aðalskoðun.

Að mati SVÞ er því eðlilegt að bílaleigubílar sæti árlegri aðalskoðun. Í ljósi þeirrar óvissu sem Procar-málið hefur orsakað, og með hliðsjón af ríkum hagsmunum heiðarlegra seljenda og hrekklausra kaupenda hlýtur annað að teljast bæði óásættanlegt og óréttlætanlegt.