Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem og markaðssetningu verslana fyrirtækisins, þ.m.t. pöntunarþjónusta sem boðið er upp á. Þá hafa samtökin bent á að með þessum verslunarrekstri er ríkið í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi og hafa samtökin í því samhengi bent á að þessar verslanir Fríhafnarinnar ehf. gera út á þennan aðstöðumun í markaðssetningu sinni þar sem auglýst er að verð er allt að fimmtíu prósent lægra í fríhöfninni en í miðbæ Reykjavíkur.

Þessu til viðbótar hafa SVÞ gagnrýnt pöntunarþjónustu verslana Fríhafnarinnar ehf. en samtökin telja að með þeirri þjónustu, sem á margan hátt er sambærileg netverslun, þar sem hver sem er getur pantað vörur án þess þó að fela í sér það skilyrði að sá hin sami sæki þær vörur, hafi þessar verslanir farið inn á hinn almenna markað utan flugstöðvarinnar og því sé sú starfsemi í virkri samkeppni á þeim markaði.

SVÞ benda á að gagnrýni samtakanna á starfsemi Fríhafnarinnar ehf. kemur ekki eingöngu frá SVÞ heldur hefur fjármálaráðherra einnig sett út á þá starfsemi. Í þessu samhengi vísast til ummæla fjármálaráðherra á fundi SVÞ hinn 17. mars sl. þar sem ráðherra sagðist vera ósáttur við að sjá skilti í Fríhöfninni sem auglýsa að verðið sé allt að fimmtíu prósentum lægra en í miðbænum og taldi hann að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði. Þá sagði ráðherra það einnig vera rangt þar sem útsöluverðið í Fríhöfninni sé gert hærra með gríðarhárri leigu sem Isavia innheimtir af fyrirtækjunum sem eiga þar pláss.

Að mati SVÞ hefur starfsemi þessi skaðleg áhrif á samkeppni á innlendum markaði og skert til muna samkeppnisskilyrði á markaði með þær vörur sem seldar eru í verslunum Fríhafnarinnar ehf. Hafa SVÞ nú þegar sent erindi á Samkeppniseftirlitið þar sem kvartað var undan þessari starfsemi. Var skorað á Samkeppniseftirlitið að taka mál þetta skoðunar og vekja athygli viðkomandi ráðherra á þeim ágöllum sem þessi opinbera starfsemi felur sannarlega í sér. Samhliða erindi SVÞ á Samkeppniseftirlitið hafa samtökin ákveðið að óska eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA taki álitamál þetta til skoðunar enda felur framkvæmd þessi í sér brot gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins að mati SVÞ.